Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna

Þriðjudaginn 15. mars 2011, kl. 14:53:51 (0)


139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[14:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr mig út í ákvæði laganna sem ég fór vandlega yfir í nefndaráliti fyrir örfáum mínútum. Það er alveg kristaltært í þessu frumvarpi, þeim breytingum sem hér eru lagðar til, hvernig þessum málum er háttað. Það er alveg kristaltært í því nefndaráliti sem hér liggur fyrir hvernig þessum málum er háttað þannig að ég frábið mér að vera tekinn upp í eitthvert sérstakt lestrarpróf af hv. þingmanni. Þetta stendur eins og stafur á bók í nefndarálitinu og farið var yfir þetta mál, eins og hv. þingmanni er kunnugt, á þremur fundum allsherjarnefndar í gær þannig að nefndarmenn gætu verið alveg fullvissir um að þessi málsmeðferð stæðist.

Í endapunktinum á því ferli sem færi af stað eru dómstólar sem eiga úrskurðarvald um gildi ákvörðunar landkjörstjórnar í samræmi við almennar reglur ef á reynir og ég tel að þetta muni svo sannarlega ekki ógna réttarríkinu sem ég veit að hv. þingmanni er mjög umhugað um.