Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Þriðjudaginn 22. mars 2011, kl. 15:43:13 (0)


139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[15:43]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Umræðan um þessi blessuðu loftslagsmál er alltaf töluvert heillandi, einfaldlega vegna þess að þegar í nauðirnar rekur virðumst við oft og tíðum detta niður í skilgreiningar á hugtökum og höfum þá ekki sama skilninginn á þeim. Eins og ágætlega kom fram í andsvörum hæstv. umhverfisráðherra og hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur þá skortir sameiginlegan skilning á því hvað er sjálfbær nýting orkulinda. Það er mjög dapurlegt þegar svo háttar til að við höfum ekki sameiginlegan skilning á því hugtaki í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem eru undir fyrir Íslendinga hvað varðar nýtingu þeirra sömu orkulinda. Ef það væri á mínu færi að setja eitthvert eitt verkefni á oddinn væri það að ganga þannig til verka að við hefðum öll sama skilninginn á þessu hugtaki, þó ekki væri annað. Þá þyrftum við ekki að vera að fjasa um það hér hvort við værum að nýta jarðvarma eða vatnsafl á sjálfbæran hátt.

Hingað til hefur skilningur minn verið sá að við hefðum kappkostað að nýta orkulindir, hvort heldur það er í jarðvarma eða vatni, á þann veg að það væri sjálfbær nýting. Ef skilningur hæstv. umhverfisráðherra er ekki sá hinn sami erum við í raun komin á allt annan stað í umræðunni en við vorum áður en við lögðum upp í hana. Ég tel því mjög brýnt að eyða misskilningi ef hann er uppi í þessum efnum.

Í umræðu um þetta plagg, sem er skýrsla hæstv. ráðherra um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, vil ég strax geta þess að ákveðinn fyrirvari er á þessu verki sem kemur fram í 2. setningu í því plaggi sem hér liggur fyrir þar sem segir að þessari aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sé ætlað að tryggja að Ísland geti staðið við líklegar skuldbindingar sínar á alþjóðavettvangi, um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2020. Ég staldra örlítið við orðið „líklegar“ sem bendir til þess að við vitum ekki til fullnustu hvaða skuldbindingar um er að ræða. Við erum því að leggja fram tillögur okkar að aðgerðum í loftslagsmálum án þess að hafa nokkra fullvissu fyrir því hvernig þær gagnast í einhverju stærra, alþjóðlegu samhengi.

Eins og ágætlega kemur fram í skýrslunni varð nokkurt bakslag í alþjóðlegum samningaviðræðum um loftslagsmál þegar fyrir lá að ekki næðist bindandi samkomulag á Kaupmannahafnarráðstefnunni svokölluðu. Það samkomulag sem þar var gert var gert á milli fulltrúa á þessari ráðstefnu og var hvorki lagalega bindandi né fullkomið að allra mati. Eftir stendur að vinna betur úr þessum efnum. Að margra mati, eins og tiltekið er í skýrslunni, má þó segja að hið svokallaða Kaupmannahafnarsamkomulag hafi komið í veg fyrir að þessi ráðstefna skilaði engum árangri.

Það er auðvitað alvarlegt mál og sérstaklega þegar haft er í huga að fram undan er önnur ráðstefna í desember á þessu ári. Þar er raunar undirstrikað í skýrslu hæstv. ráðherra, á bls. 36, að áfram ríkir mikil óvissa á þessum vettvangi, meðal flestra þjóða heims, um það hvernig þær ætla að komast að niðurstöðu. Í skýrslunni er ítrekað það álit, sem ég held að sé hárrétt, að það megi ekki dragast mikið lengur ef ekki á að tefla þeim ávinningi í tvísýnu sem náðist í Kyoto. Þar af leiðandi er skiljanlegt að skýrslan hefjist með þeim inngangi sem hér er getið um, þ.e. að það sé líklegt að á okkur kunni að falla einhverjar skuldbindingar þegar fram líða stundir allt fram til ársins 2020.

Ég vil leggja áherslu á það, í ljósi þeirrar miklu óvissu sem þarna er um að ræða, að meginmarkmið okkar Íslendinga hlýtur að vera að berjast fyrir því að við höfum fullt forræði yfir þeim auðlindum sem við erum að nýta í þessu ágæta landi okkar. Í því sambandi vil ég nefna að hið svokallaða íslenska ákvæði sem varðaði nýtingu endurnýjaðrar orku — það varð að veruleika í tengslum við Kyoto-samkomulagið sem unnið var á árunum 1995–1997 — var okkur mjög mikilvægt og við náðum því fram í krafti sérstöðu landsins og okkar orkunýtingar. Við getum kallað það hvort heldur er undanþágu eða frávik frá einhverjum alþjóðlegum skuldbindingum, engu að síður var þetta virt. Gríðarlegir hagsmunir eru fólgnir í þessari sérstöðu fyrir íslenska þjóð. Ég vil undirstrika það að krafa okkar hlýtur að vera sú að við getum tryggt þetta forræði okkar. Að sjálfsögðu hljótum við að gera þær kröfur öll sem eitt að í þeim samningum sem greinilega eru fram undan í þessum efnum þá getum við áfram lifað á þessum sömu auðlindum með svipuðum hætti og við höfum gert.

Að mínu mati þarf að taka tillit til þessarar sérstöðu landsins. Við Íslendingar búum við mikil gæði í umhverfi okkar, sama hvert litið er. Ég er þeirrar skoðunar að í ljósi sérstöðu landsins, hvar við erum í sveit sett í veröldinni, hvernig við höfum byggt þetta land, höfum gert það af fullri ábyrgð — við getum rifist um einstakar framkvæmdir, en ég er þeirrar skoðunar að því fólki sem hér hefur kosið sér búsetu hafi farnast vel og sýnt fulla ábyrgð í umgengni sinni við landið; umhverfið, auðlindir o.s.frv.

Það er nefnt hér í skýrslu ráðherra varðandi forsendur aðgerðaáætlunarinnar um 2. lið í „Leiðarljósum“ — sem ber yfirskriftina „Metnaður“ — að Ísland hafi alla burði til að vera fyrirmyndarríki í loftslagsmálum og geti orðið með fyrstu ríkjum veraldar til þess að teljast kolefnahlutlaust. Í sjálfu sér er þetta hið besta markmið, sjálfsagt að vinna í þeim anda, en á eftir þessari setningu segir að slíkt geti hjálpað til við að reisa orðspor Íslands, eins og það er orðað. Ég staldra örlítið við þá fullyrðingu sem þarna er og velti því fyrir mér hvort orðspor Íslands sé í þeirri stöðu að það þurfi að endurreisa það. Samkvæmt þeim mælikvörðum sem við getum lagt á þessa hluti er Ísland mjög framarlega á þessu sviði í veröldinni. Allir mælikvarðar benda til þess, hvort heldur litið er á almenn tilbrigði, árangur í loftslagsmálum, gnægð vatns er í mörgum vatnshlotum sem við höfum verið að sýsla með o.s.frv. Það eru ótal þættir sem stuðla að þeim árangri sem við höfum náð sem þjóð.

Þegar rætt er um þau tækifæri sem við höfum í þessum efnum — ég leyfi mér að vitna til ræðu hæstv. ráðherra hér áðan sem sá réttilega mikil tækifæri á sviði samgangna og í skipaflotanum, samgöngur leggja mest til í þessum efnum — verður líka að hafa í huga hvernig við erum í sveit sett í veröldinni, ég nefni það enn og aftur. Hér búa 300 þúsund manns í tiltölulega stóru landi sem gerir kröfu um það að við nýtum þann samgöngumáta sem okkur býðst hverju sinni og þannig háttar einfaldlega til að samgöngur byggjast á jarðefnaeldsneyti. Til viðbótar er síðan þetta ágæta land okkar eyja og í ljósi þess hvaða áherslu við viljum leggja við uppbyggingu atvinnuvega, að leggja mikið upp úr ferðaþjónustunni, fljúgum við hér bæði oft og mikið til og frá landinu. Þannig að möguleikana til þess að draga úr notkun á þessu sviði tel ég að óbreyttu tiltölulega litla, þ.e. ef við viljum halda þeirri stöðu sem við höfum náð í þessum efnum.

Varðandi skipaflotann gefast aftur á móti einhver tækifæri, eins og kemur fram í aðgerðaáætluninni sjálfri. Þó má segja að oft og tíðum ráði ákveðin óskhyggja ferð þegar markmiðin eru sett fram og tillögur sem lúta að lífeldsneyti á fiskiskipaflotann. Maður sér ekki til lands hvað þann þátt varðar, en vissulega væri það ánægjulegt ef við gætum náð einhverju fram í þeim efnum.

Það sama má segja um rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja en það tengist raunar öðru atriði sem er hér í aðgerðaáætluninni, undir öðrum aðgerðum, sem heitir „Rafmagn til skipa í höfnum“, þetta er á bls. 34 í skýrslunni. Þar kemur fram að takmarkaður ávinningur sé af frekari aðgerðum af þessu tagi, en rétt sé að skoða hvort koma megi á landrafmagni til hafna sem ekki búa við það í dag að bæta þá aðstöðu sem nú er. Þarna er ákveðinn misskilningur á ferðinni að mínu mati því að á ýmsum þessara hafna háttar þannig til að það á eftir að svera til þeirra raflínur sem er forsendan fyrir því að hægt sé að gera þær úrbætur sem um er rætt.

Enn fremur er hér inni atriði sem lýtur að því að hafa skrúfuskipti á skipum sem er mjög sérstakt að lesa hér. Í rauninni er niðurstaða þeirrar skoðunar sú að réttast sé að útgerðirnar meti þetta sjálfar áður en aðrir rjúki til. Ég er alveg viss um að það muni menn gera.

Ég vil svo nefna hér varðandi samflotskerfið bls. 33. Þar er verið að varpa upp skemmtilegri hugmynd í þá veruna að einstaklingar komi sér upp sameiginlegum notum af einkabifreiðum þegar þeir fara á milli staða. Því er varpað fram hvort setja mætti upp slíkt kerfi hér á landi sem tilraunaverkefni. Ég vil nefna í þessu sambandi að slíkt verkefni er í gangi á vefnum þar sem fólk hefur tækifæri til að skiptast á upplýsingum og sækja sér far hjá þeim sem eiga leið um sama veg, eftir því sem hver og einn vill hafa það.

Ég vil undir lok ræðu minnar nefna það sem kemur fram á bls. 4 í skýrslunni, sem er um samstarf Íslands og Evrópusambandsins varðandi sameiginleg markmið í þessum efnum, og spyrjast fyrir um það, og biðja hæstv. ráðherra í það minnsta að hugleiða það, með hvaða hætti ábatinn sem þarna er settur fram skilar sér til Íslands. Meginröksemdin fyrir því sem þarna er sett niður á blað er sú að þetta hafi fyrst og fremst þann kost í för með sér að við þurfum mögulega ekki að búa við tvöfalt kerfi skuldbindinga. Er ekkert sem segir að við þurfum endilega að gera það? Ég skal viðurkenna að mér fannst þetta nokkuð óljóst þegar ég var að lesa mér til um þetta og áttaði mig ekki fyllilega á því hver ábatinn yrði fyrir Ísland að ganga inn í þetta samstarf undir þeim formerkjum sem þarna er verið að leggja til.

En að öðru leyti, forseti, ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þessa skýrslu. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja hana fram og vænti þess að hún geti orðið okkur öllum til gagns.