Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Þriðjudaginn 22. mars 2011, kl. 15:58:27 (0)


139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[15:58]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tek eftir því mér til undrunar að ræðumenn Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu tala einkum um loftslagskvóta Íslendinga en ekki um þá aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem hér liggur frammi. Úr því að það er svo er rétt að spyrja hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sem hér er aðaltalsmaður Sjálfstæðisflokksins: Hefur Sjálfstæðisflokkurinn athugasemdir við og hefur hann tekið afstöðu gegn þeim markmiðum sem Íslendingar hafa sett sér í tveimur ríkisstjórnum um samdrátt við losun gróðurhúsalofttegunda, annars vegar að draga saman um 50–75%, sem hefur að vísu verið gagnrýnt að sé nokkuð mikið bil, fyrir árið 2050, frá árinu 1990, það er miðað við það ár sem er verulegur samdráttur, og hins vegar að draga saman um 30% í samstarfi við Evrópusambandið fyrir árið 2020, sem er líka verulegur samdráttur? Hefur Sjálfstæðisflokkurinn tekið afstöðu gegn þessu? Hvaða markmið telur hann þá að eigi að setja sér í þessu efni? Það er mjög mikilvægt að fá að vita þetta. Ef það er almenn sátt um þessi markmið kemur að því að útfæra hana í aðgerðaáætluninni. Ef við erum ekki sammála um þessi markmið á umræðan að snúast um það og ekki þau smáatriði sem talsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa hér talið fram og ekki verða skiljanleg nema við fáum að vita um þá grundvallarstefnu í loftslagsmálum sem Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að hafa markað.