Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Þriðjudaginn 22. mars 2011, kl. 16:10:14 (0)


139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[16:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svarið. En að einu leyti er ég ósammála þingmanninum, þessi áætlun gengur út á það fyrst og síðast að stjórnvöld marki sér stefnu. Að henni undirliggjandi er það sú stefna sem fyrir liggur, sú stefna að ganga þá leið að fara inn í viðskiptakerfi með loftslagsheimildir í gegnum Evrópusambandið.

Nú hefur komið upp mikið sukk og svínarí með þessi viðskipti, skattaundanskot og alls konar ófögnuður hefur átt sér stað þarna, enda náttúrlega tær snilld á ferðinni. Hér er verið að búa til verðmæti úr lofti. Þetta er loft. Það er verið að verðleggja loft með þessum loftslagsheimildum. Ég tek líka fram að við vitum öll að hið íslenska ákvæði loftslagsheimildarinnar sem fólst í því að ekki mátti setja á markað — forseti, ég heyri varla í sjálfri mér fyrir formanni umhverfisnefndar. (KÞJ: Ég var í viðræðum …) Íslenska ákvæðið mátti ekki ganga kaupum og sölum. Þess vegna hef ég alltaf lagt á það brýna áherslu að við héldum þessu undanþáguákvæði skilyrðislaust vegna þess að við nýtum ekki neitt hér varðandi brennslu af neinu tagi við framleiðslu orkunnar okkar.

Það var stefna stjórnvalda að ýta þessu út af borðinu og ganga þennan Evrópuveg. Út af því spurði ég hvort það væri ekki grunnurinn að því að umsóknin lægi inni.

Það var skemmtilegt að þingmaðurinn minntist á makrílinn eins og ég í fyrri ræðu minni vegna þess að nú syndir hann hér inn í landhelgina og þingmaðurinn talaði um að við þyrftum að semja um nýtingu á honum. Að sjálfsögðu þurfum við að semja um nýtinguna á honum. Íslendingar fara líka fram af miklu sjálfstrausti í því máli og fara fram á 17–18% af heildarafla makrílsins, en Evrópusambandið vill að við veiðum bara 2%. Þegar þjóðir ganga til samninga (Forseti hringir.) er farið fram með ýtrustu kröfur. Svo er mæst á miðri leið, en það er ekki farið á hnjánum eins og þessi ríkisstjórn hefur tíðkað (Forseti hringir.) á sinni tíð og allt gefið eftir frá upphafi eins og í þessu máli. (Forseti hringir.)