Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 14:46:24 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

fundarstjórn.

[14:46]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að taka vel í þá beiðni að við ræðum þetta mál á fundi þingflokksformanna. En þá vil ég spyrja frú forseta: Hvenær hyggst forseti halda þann ágæta fund? Í beiðni minni fólst að málið yrði jafnvel rætt í dag. Ég er handviss um að fjölmiðlarnir sitja um hæstv. forsætisráðherra og leita eftir skýringum hennar á úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Ég mundi gjarnan vilja, í ljósi þess sem komið hefur fram um störf Alþingis og þann lærdóm sem við getum dregið af rannsóknarskýrslunni, að við fengjum að heyra skýringar hæstv. forsætisráðherra fyrst hér í þinginu í staðinn fyrir að heyra þær í fjölmiðlum. Ég óska eftir því, frú forseti, að þessi fundur okkar verði tímasettur og að hann verði haldinn sem fyrst.