Skipun stjórnlagaráðs

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 15:58:26 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:58]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður beindi orðum sínum til mín þegar hann talaði um að alþingismenn treystu ekki þjóðinni til að taka mikilvægar ákvarðanir þá hlýt ég að mótmæla þeim hvað sjálfan mig varðar. Ég hef verið hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslum í stærri málum og var einn af þeim sem greiddu atkvæði með því að t.d. Icesave-málið gengi til þjóðaratkvæðis. Ég vona að hv. þingmaður hafi kannski frekar beint orðum sínum til þeirra hv. þingmann sem greiddu atkvæði gegn því.

Ég og hv. þingmaður erum held ég sammála um að það sé mikilvægt verkefni að endurskoða stjórnarskrána. Meginþunginn í ræðu hv. þingmanns snerist í rauninni ekki fyrst og fremst um þá tillögu sem hér liggur frammi heldur gerði hann nokkuð ítarlega grein fyrir þeirri breytingartillögu sem hann og félagar hans í þinghópi Hreyfingarinnar leggja fram til breytinga á þessu þingmáli, þ.e. að tillögur stjórnlagaráðs gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu áður en þær komi til meðferðar þingsins og þá þannig að í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu verði greidd atkvæði sérstaklega um hverja og eina grein.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvort hann telji að þessi aðferð gangi upp, hvort hún verði ekki of flókin, sérstaklega ef tillögurnar um breytingu á stjórnarskránni verða margar. Kynni þjóðaratkvæðagreiðsla með þeirri tilteknu aðferð ekki að (Forseti hringir.) leiða til óheppilegrar niðurstöðu?