Skipun stjórnlagaráðs

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 17:00:03 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur kærlega fyrir góða og yfirgripsmikla ræðu. Afstaða hennar í þessu máli, eins og í velflestum málum á þingi, er mjög skýr og hún talar mjög skýrt mál.

Ég veit að hv. þingmanni var umhugað um svonefnt stjórnlagaþing, bindandi stjórnlagaþing eins og uppleggið var hjá framsóknarmönnum lengi vel. Ég var reyndar ósammála því, tel að stjórnlagaþingið sé inni á þingi, við erum hið raunverulega stjórnlagaþing og við eigum að fylgja því eftir. Ég fagna því sérstaklega að hv. þingmaður telur það sem við erum að ræða um vera vont ráðslag, þessa tillögu sem liggur fyrir af hálfu ákveðinna þingmanna en náttúrlega er raunverulegt fyrirsvar þessarar tillögu forsætisráðherra og ríkisstjórnin. Ég tel þetta vera vonda leið og fara gegn dómsvaldinu, þrískiptingu ríkisvaldsins. Ég held að við séum algerlega sammála um það hversu vond leið þetta er.

Ég vil spyrja hv. þingmann um eitt, því að ég bind enn ákveðnar vonir við að það verði ekki allt of margir úr stjórnarandstöðunni sem hlaupi undir bagga með ríkisstjórninni í þessu máli og vonandi náum við að fella það því að ljóst er að flótti er brostinn í stjórnarliðið í málinu, sem og reyndar ýmsum öðrum, en ef við náum að fella það er boltinn að sjálfsögðu og eðlilega enn þá hjá okkur þingmönnum. Er hv. þingmaður sammála mér í því að það sé styttra á milli manna í þingsölum á milli flokkanna, allra flokka til að ná samkomulagi um stjórnarskrána og breytingu á stjórnarskránni í stórum málum eins og þeim málum sem varða forsetaembættið og málum sem varða auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána? Er hv. þingmaður sammála mér í því að hugsanlegt væri á grundvelli allra þeirra miklu gagna sem liggja fyrir eftir þjóðfundinn, stjórnlaganefndina og ýmislegt fleira, stjórnarskrárnefndina hans Jóns Kristjánssonar, að þetta þing sé þess burðugt að geta náð saman um þau mikilvægu ákvæði stjórnarskrárinnar sem við höfum verið að ræða svo oft um?