Skipun stjórnlagaráðs

Fimmtudaginn 24. mars 2011, kl. 12:03:36 (0)


139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Alþingi ákvað með samþykkt laga um stjórnlagaþing að hefja undirbúning að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Hæstiréttur úrskurðaði að kosningin sem fór fram samkvæmt þeim lögum væri ógild. Sá úrskurður stendur og hann er virtur. Það er óhjákvæmilegt verkefni Alþingis að taka ákvörðun um það með hvaða hætti undirbúningi að endurskoðun stjórnarskrárinnar verður þá háttað. Það umboð hefur Alþingi að sjálfsögðu ótvírætt og er ekki að ganga á svig við niðurstöðu Hæstaréttar í neinu tilliti. Það er gert með þeirri tillögu sem meiri hluti nefndar, skipuð fulltrúum allra flokka, komst að, þ.e. að leggja til að skipa sérstakt ráð til undirbúnings þessu verkefni. Niðurstaðan úr þeirri vinnu kemur til Alþingis sem að sönnu er stjórnarskrárgjafinn miðað við okkar stjórnarskrá eins og hún er í dag.

Miðað við þær atkvæðagreiðslur sem þegar hafa farið fram um þetta mál sýnist mér að af þeim þingmönnum sem afstöðu taka til málsins séu um 60% þeirrar skoðunar að fara þessa leið, (Forseti hringir.) ég tala nú ekki um að teknu tilliti til þeirra sem óhjákvæmilega eru fjarverandi og hafa tjáð skoðun sína í þessu máli. Ég tel þessa niðurstöðu góða. [Hávaði í þingsal.] Ég segi já.