Mengunarmál aflþynnuverksmiðjunnar Becromal við Eyjafjörð

Mánudaginn 28. mars 2011, kl. 16:08:42 (0)


139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

mengunarmál aflþynnuverksmiðjunnar Becromal við Eyjafjörð.

[16:08]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er brýn og mikilvæg umræða. Við þurfum að reka fyrirtæki í þessu landi, en við rekum þau að sjálfsögðu í sátt við umhverfið og samfélagið. Þess vegna þurfum við á eftirliti að halda. Það þarf að vera síkvikt. Það má ekki vera þunglamalegt og það má ekki vera langsótt. Það er nú einu sinni svo að miðað við núverandi stöðu er það einmitt þunglamalegt og langsótt og mjög miðstýrt. Ég vil koma aðeins að því hér á eftir. En fyrst þetta:

Það er tvennt sem mikilvægt er að hafa í huga í þessari umræðu. Samkvæmt mælingum Matís reyndist mengunin vera langtum minni en óttast var, það er gott að halda því til haga. Þetta vekur okkur hins vegar til umhugsunar um að einmitt á byrjunarstigum stóriðju og annars konar verksmiðja þarf eftirlitið kannski að vera meira en minna vegna þess að hætt er við því, eins og víða í samfélaginu, að mistök verði í byrjun ferils. Við skulum hafa þetta í huga.

Við þurfum líka að hafa í huga að það hefur verið stefna stjórnvalda um langt skeið að flytja eftirlitshlutverk heim í hérað til að gera það kvikara, til að gera það eðlilegra og til að gera það hagkvæmara á allan máta. Ég vil vitna hér í bréf frá umhverfisráðuneytinu, frá því 7. júlí 2010, þar sem segir:

„Ráðuneytið tekur undir að færa eigi eftirlit frá Umhverfisstofnun til heilbrigðisnefnda þegar slíkt hefur í för með sér aukna hagkvæmni í eftirliti, þar sem hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd hefur óskað eftir því og þegar það tryggir fullnægjandi fagþekkingu varðandi umhverfiseftirlit með umræddri starfsemi.“

Þetta eru orð ráðuneytisins. Við eigum að fara eftir þessum orðum ráðuneytisins. Við eigum að færa verkefnin heim í hérað og við eigum jafnframt að skilgreina atvinnu- og byggðasvæði hér á Íslandi með þeim hætti að þar séu verkefnin framin. (Forseti hringir.) Við megum ekki hafa þessi svæði of lítil út af nálægðinni, en við eigum að skilgreina atvinnu- og byggðasvæði með það í huga að flytja verkefnin heim til þeirra, (Forseti hringir.) þannig verður verkefnið betra.