Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Þriðjudaginn 29. mars 2011, kl. 19:46:10 (0)


139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:46]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé alveg hárrétt greining hjá hv. þingmanni, það tryggingakerfi sem hér er mælt fyrir um gæti hugsanlega tryggt innstæður hjá viðskiptavinum sparisjóðs, (MT: Raufarhafnar.) já, lítils sparisjóðs, (PHB: Á Raufarhöfn.) t.d. á Raufarhöfn, ef hann færi í þrot. Það er allt annað upp á teningnum ef einn af stóru viðskiptabönkunum yrði fyrir áfalli, að Íslandsbanki eða Landsbankinn færi á hliðina. Það þarf ekki mikið til, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson veit.

Við vitum að ef ríkisstjórnin fer fyrningarleið í sjávarútvegi er úti um a.m.k. Landsbankann. Hvað gerist þá? Þá kemur til kasta þessa tryggingakerfis sem mun aldrei geta staðið undir þeim tryggingum og þeirri vernd sem honum er ætlað að veita, a.m.k. ekki nema ríkisstjórnin bíði með að grípa til fyrningarleiðarinnar í svona 97 ár, [Hlátur í þingsal.] þá kann að vera að hægt verði að veita innstæðueigendum þá vernd sem að er stefnt. Þetta sýnir þá sýndarmennsku og þá fölsku vernd sem í þessu frumvarpi felst og kemur fram í upphafsorðum þess í 1. gr. Það er svo ótrúlegt.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann hvort hún sé mér ekki sammála um að það sé ótrúlegt að lesa nefndarálit meiri hlutans. Þar láta menn eins og ekkert hafi í skorist, leggja það til að tryggingin sé hækkuð úr 20 þús. evrum í 100 þús. evrur og að frestur sjóðanna til að greiða út verði styttur. Það er látið eins og hér flæði allt í peningum í fjármálakerfinu. (Forseti hringir.) Á sama tíma vitum við að (Forseti hringir.) núverandi tryggingarsjóður er gjaldþrota og getur ekki staðið undir skuldbindingum sínum.