Tekjuskattur

Miðvikudaginn 30. mars 2011, kl. 16:54:34 (0)


139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[16:54]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að játa að ég hef ekki velt því sérstaklega fyrir mér hvort sjúkrasjóðirnir eigi að greiða niður skuldir fólks í veikindum en umræða um það getur alveg verið hluti af þeirri umræðu sem færi fram þegar og ef menn tækju sig til og skoðuðu þessa löggjöf. Við skulum ekki gleyma því að sjúkrasjóðirnir, styrktarsjóðir verkalýsðfélaganna o.s.frv. eru í eðli sínu hluti af velferðarkerfinu og mér finnst þetta vera ein af mörgum hugmyndum sem hv. þingmaður hefur kastað fram sem megi skoða og tala um. Ég ítreka þó, eins og hann gerði sjálfur, að þar með er ég ekkert endilega að lýsa yfir stuðningi við hana.

Ég vil hins vegar taka fram eins og ég sagði í ræðu minni að ég styð anda frumvarpsins eins og það kom fram í upphafi, þ.e. frumvarpið er lagt fram til að gæta tiltekins jafnræðis á milli þeirra sem þegar hafa fengið greiddar út bætur án þess að borga af þeim skatta samkvæmt þessum tryggingum og hinna sem standa nú frammi fyrir því að þurfa að greiða skatta af tryggingabótum sem þeir fá út núna en keyptu báðir tryggingarnar á sömu forsendum. Úr þessu þarf að bæta og ég er því algjörlega sammála.

Ég er hins vegar ekki tilbúinn til að gangast inn á það að við eigum að stíga skrefið áfram, sem breytingartillaga meiri hluta nefndarinnar leggur til, þ.e. að halda þessu opnu áfram án nánari umræðu um það hvort taka eigi fleiri þætti í tryggingakerfinu og í skattlagningu innan bótakerfisins til frekari skoðunar.