Stjórn vatnamála

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 14:04:21 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[14:04]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er satt sem hv. þingmaður sagði, ég er nú fegin því að hann skilur þetta á sama hátt og ég. Það er alveg hreint með ólíkindum að hættuleg og þrávirk efni, sem er fyrirsögnin í 14. gr. frumvarpsins eins og það nú liggur eftir 2. umr., skuli vera forgangsefni. Þetta er svona tölvuþýðing, stöðluð þýðing, á „prioritets emne“, eins og það heitir, eða „priority“, sem hefur einhverja allt aðra merkingu en upp á íslenska tungu. Því það er ekki eins og þessi efni séu efni sem eru í fyrirrúmi. Þetta eru, eins og hv. þingmaður sagði, efni sem eru til algjörrar óþurftar. Ég fagna þessari tillögu hans um óþverrann því að í 14. gr. segir að í áföngum skuli draga úr mengun vegna hættulegra og þrávirkra efna, þ.e. forgangsefna.

Síðan kemur þessi gullvæga setning, með leyfi forseta:

„Raða skal efnunum í forgangsröð og leggja fram tímasetta áætlun um takmörkun á losun þeirra.“

Þarna er verið að tala íslensku. Þarna er verið að tala um það hvernig raða eigi hættulegum og þrávirkum efnum í forgangsröð til þess að eyða þeim og koma þeim út úr umhverfinu. En að það skuli heita upp á íslensku „forgangsefni“, finnst mér aldeilis með ólíkindum.

Mig langar, af því nú er tími minn að verða búinn, að lokum að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það liggi á að afgreiða þetta mál. Hv. umhverfisnefnd hefur verið undir gríðarlega mikilli pressu við að ljúka þessu máli fyrir 1. apríl og ég velti því fyrir mér af hverju það sé.