Stjórn vatnamála

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 17:57:36 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[17:57]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvar hans. Pressan á þetta mál hafi verið vegna óánægju í Brussel, sem við könnumst við, þingmenn. Það er oft sem kallað er eftir því að við innleiðum tilskipanir sem við höfum skuldbundið okkur til og það hefur tekið langan tíma stundum og kannski ekki síst á síðustu tveimur árum þegar þingstörfin hafa verið mjög sliguð af því að greiða úr því þunga höggi sem varð hér í hruninu.

Óánægjan í Brussel er því ekkert ný en ég hlýt að skilja orð hv. þingmanns sem svo að það sem hvíslað var hér í þingsölum í dag, um það að lögfesta yrði þetta mál fyrir tiltekna dagsetningu ella yrði sett af stað kæra á Alþingi þá væntanlega, fyrir að hafa ekki hlítt þeim tímatakmörkunum — ég skil orð hv. þingmanns sem svo að það hafi ekki verið á rökum reist og það er vel.