Stjórnlagaþing

Fimmtudaginn 07. apríl 2011, kl. 12:04:06 (0)

139. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2011.

stjórnlagaþing.

644. mál
[12:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar um frumvarp til laga um brottfall laga um stjórnlagaþing.

Allsherjarnefnd fjallaði um málið og með frumvarpinu er lagt til að lög nr. 90/2010, um stjórnlagaþing, verði felld brott. Eins og vitað er var hlutverk stjórnlagaþings að endurskoða með ráðgefandi hætti stjórnarskrá lýðveldisins. Fulltrúar stjórnlagaþings voru kosnir til verkefnisins 27. nóvember 2010 en Hæstiréttur ógilti kosninguna 25. janúar sl.

Við umfjöllun um þingsályktunartillögu um skipun stjórnlagaráðs var talið rétt að leggja til að lög um stjórnlagaþing féllu brott eins og fjallað var um í áliti meiri hluta allsherjarnefndar á þskj. 1028 sem er 549. mál þingsins.

Í frumvarpi þessu er ákvæði til bráðabirgða þar sem lagt er til að ekki verði skylt að auglýsa störf starfsmanna stjórnlagaráðs. Það er sett fram vegna þess að samkvæmt þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir því að störf stjórnlagaráðsins taki lengri tíma en áætlað var varðandi stjórnlagaþingið á sínum tíma. Þá voru gefnir tveir mánuðir en nú er gefinn tími allt til júníloka og með framlengingu ef á þarf að halda á meðan stjórnlagaráðið getur starfað. Þess vegna er þetta ákvæði haft inni til bráðabirgða.