Fullgilding Árósasamnings um aðgang að upplýsingum o.fl.

Þriðjudaginn 12. apríl 2011, kl. 15:51:30 (0)


139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullgilding Árósasamnings um aðgang að upplýsingum o.fl.

678. mál
[15:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Krafa tímans er aukið lýðræði. Við höfum fundið það mjög glöggt hér á síðustu missirum, alþingismenn, og það felur í sér aukinn rétt til almennings. Ég er ekki alveg viss um að jafnvel þó að menn taki þessum samningi með þeim hlýju faðmlögum sem hv. þingmaður gerði hér áðan þurfi þeir endilega að óttast að frestirnir aukist og lengist. Er það ekki þannig að þeim samtökum sem hv. þingmaður átti við hafi alltaf tekist að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, mönnum hefur tekist, ef einhverjir meinbugir hafa verið á því, að koma þessum sjónarmiðum í gegn með einhverjum hætti, og það hefur leitt til þess að menn hafa þurft á þessum lögboðnu frestum að halda. Því miður hefur það gerst að menn hafa farið fram úr þeim. Það er mjög bagalegt. Ég er sennilega sekur um eitthvað slíkt líka frá því að ég var yfirmaður og ráðherra skipulagsmála, ég man að það voru mjög erfið mál sem fóru til þeirrar nefndar sem hv. þingmaður nefnir hér.

Eins og ég sagði, og hóf mína framsögu á, geng ég þess ekki dulinn að þetta er umdeilt mál en það er þarft að ræða þetta. Ég treysti þeim nefndum sem um þetta fjalla til þess að fara mjög djúpt í málið og skila þeim viðhorfum sem eru á meðal þingmanna. Ég efa ekki að tekist verður á um þetta mál en þetta er að ýmsu leyti mjög merkilegt mál jafnvel þó að hv. þingmenn, eins og sá sem hér talaði áðan, sjái í því einhvers konar möguleika á töfum, málið er ekki sett fram til þess. Við verðum hins vegar að sameinast um það, bæði varðandi þetta mál og önnur, að seinum viðbrögðum ráðuneyta verði útrýmt. Það er mjög bagalegt að þau fari fram yfir tilskilinn frest, ég hef margoft tekið undir það.