Mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland

Þriðjudaginn 12. apríl 2011, kl. 17:43:04 (0)


139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

723. mál
[17:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði í fyrra andsvari að uppbygging ætti sér stað. Það er ekki nokkur vafi á því að margir, líka í íslenskum stjórnmálum, mundu sennilega fella það undir skilgreininguna hernaðarbrölt.

Þegar ég las úttekt hv. þingmanns á því hvernig menn hafa byggt upp vígbúnað í norðurhöfum fannst mér hún hófstillt. Mér fannst hv. þingmaður ekki draga í þeirri úttekt þá ályktun sem hún flytur hér. Fyrir fimm til sex árum óttuðust menn töluvert að það væri að draga til aukinnar spennu í norðurhöfum. Það helgaðist ekki síst af því að t.d. í Rússlandi voru uppi slíkar raddir. Í Rússlandi er enn sterkur hópur þjóðernissinnaðra stjórnmálamanna sem talar í þessa veru. Sá frægasti þeirra er auðvitað Zírínovskíj, þingmaður í Dúmunni, sem talaði mjög digurt í þessum efnum.

Fyrir nokkrum árum kom líka út áætlun í Rússlandi frá rússneskum stjórnvöldum þar sem gerð var grein fyrir því að framtíðarhagvöxtur í Rússlandi yrði drifinn með nýtingu auðlinda á heimskautasvæðunum. Það var til þess að fylgja eftir þeim kröfum sem menn töluðu mjög digurt um á sínum tíma og fóru í ýmsa táknræna leiðangra, eins og t.d. þann sem annar þingmaður Dúmunnar gerði, hann endaði með því að setja rússneskan fána á hafsbotninn á norðurskautinu. Það var ákveðin viðleitni til að helga sér svæði og rétt. Síðan hefur mjög dregið úr þessu af hálfu Rússa.

Tveir rússneskir leiðtogar, fyrri reyndar sovéskur, hafa flutt miklar og stefnumarkandi ræður um norðurslóðir. Hinn fyrri var Gorbatsjov, 1987 ef ég man rétt, og hinn síðari var Medvedev og ekki langt síðan hann flutti sína ræðu. Það var fyrsta ræðan mjög lengi. Þar var sleginn miklu friðsælli tónn en áður hafði heyrst um sinn frá Rússum. Það er allt það sem þeir eru að gera núna. Þeir eru hvarvetna, finnst mér sjálfum, að reyna heldur að draga úr spennunni. (Forseti hringir.)