Mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland

Þriðjudaginn 12. apríl 2011, kl. 17:56:34 (0)


139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

723. mál
[17:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir ákaflega góða ræðu. Hann kom víða við. Ég ætla að byrja á að óska honum til hamingju með nýtt embætti sem formaður þingflokks Vinstri grænna, sem er mikil breyting frá því sem var.

Hv. þingmaður talar mikið um hernaðarbrölt o.s.frv. Þá vil ég spyrja hann hvernig á því standi að Vinstri grænir stöðvuðu ekki árás NATO inn í Líbíu en Íslendingar hefðu getað beitt neitunarvaldi sínu á þeim vettvangi. Má segja að hv. þingmenn Vinstri grænna séu nú orðnir stríðsherrar, nánast hver og einn. Öðruvísi mér áður brá, frú forseti, með þann þingflokk.

Það er dálítið merkilegt með hæstv. ríkisstjórn að þeir sem voru mestu friðarsinnarnir eru orðnir stríðsherrar og hinir sem voru mestu jafnréttissinnarnir brjóta jafnréttislög.