Réttindagæsla fyrir fatlað fólk

Fimmtudaginn 14. apríl 2011, kl. 16:22:51 (0)


139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

728. mál
[16:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir frumvarp um réttindagæslu fatlaðs fólks. Við höfum beðið eftir þessu frumvarpi í félags- og tryggingamálanefnd, enda óskuðum við eftir því þegar við breyttum lögum um málefni fatlaðs fólks rétt fyrir jólin, vegna yfirfærslu á málaflokknum frá ríki yfir til sveitarfélaga, að málefni réttindagæslu kæmu hér inn í þingið fyrir 1. mars. Við flýttum því af því að í frumvarpinu sagði að því ætti að ljúka fyrir árslok 2011. Nú er það svo að lengi hefur réttindagæsla fatlaðs fólks verið bágborin hér á landi þannig að frumvarpið er mikil réttarbót fyrir fatlað fólk.

Eins og hæstv. ráðherra fór yfir skiptist þetta í réttindavakt, trúnaðarmenn og persónulega talsmenn. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að réttindavakt ráðuneytisins og trúnaðarmenn verði samtals 4,1 stöðugildi, starfshlutfall hjá réttindavakt ráðuneytisins er þá 3/5 hlutar úr stöðu. Það kemur fram í frumvarpinu að meginhlutverk ráðuneytisins í þessu starfshlutfalli verði að gæta að réttindagæslunni. En ég velti því aðeins fyrir mér, og við munum fara yfir það í nefndinni, með hvaða hætti stefnumótun er háttað, hvaða mannafli er í stefnumótun í málefnum fatlaðra. Þá ber að líta til þess að nú þegar málaflokkurinn er kominn til sveitarfélaga munu sveitarfélög að sjálfsögðu verða mjög virkir þátttakendur í stefnumótun í málefnum fatlaðra, enda eru það sveitarfélögin sem veita þjónustuna og eru í tengslum við málaflokkinn og að sjálfsögðu það fatlaða fólk sem nýtur þjónustu sveitarfélaganna.

Eins og fram kemur var þáttur sem varðar nauðung tekinn út úr frumvarpinu. Nefndin gat vel sætt sig við það í ljósi þess hversu mikilvægt var að fá réttindagæsluhlutann inn í þingið. Ég vona svo sannarlega að við náum að senda frumvarpið út til umsagnar fyrir páskahlé og afgreiða það sem lög fyrir sumarhlé. Stefnir nefndin að því, en svo verðum við að sjá hverju fram vindur, hvaða athugasemdir koma við frumvarpið og hvaða breytingar við teljum að kunni að þurfa að gera á því.

Það veldur mér áhyggjum að talað er um að kostnaður við réttindagæslu, þ.e. réttindavaktin og trúnaðarmennirnir auk ferða og ýmiss kostnaðar í tengslum við þeirra starfsemi, verði nálægt 40 millj. kr. á ári. Nú er ljóst að frumvarpið verður ekki að lögum fyrr en þó nokkuð verður liðið á þetta ár og að í ráðuneytinu eru til staðar 20 millj. kr. í þennan málaflokk á þessu ári, og ætti það að duga. Síðan kemur jafnframt fram í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins, með leyfi forseta, setning sem ég ætla að vitna hér í:

„Ef talin verður meiri þörf fyrir aukna starfsemi á þessu sviði fremur en öðrum verður að gera ráð fyrir að velferðarráðuneytið muni þá forgangsraða til verkefnisins öðrum fjárheimildum innan síns útgjaldaramma.“

Hér finnst mér fjármálaráðuneytið ganga ansi langt í því að fara inn á valdsvið fjárveitingavaldsins varðandi það að ákvarða hvar við eigum að forgangsraða fjármunum. Nú veit ég mjög vel sem stjórnarþingmaður að við höfum úr mjög takmörkuðum fjármunum að spila. Við þurfum að vanda vel valið á milli útgjaldaliða. Við þurfum að forgangsraða mjög vel.

Þegar ég hugsa um útgjöld velferðarráðuneytisins, og hér erum við að tala um grundvallarréttindi fólks, fatlaðs fólks, velti ég fyrir mér: Eigum við þá að forgangsraða réttindagæslu fatlaðra umfram barnavernd? Umfram þjónustu við aldraða? Umfram málefni útlendinga á Íslandi? Og þannig gæti ég lengi talið. Við erum þarna inni með allt almannatryggingakerfið. Við erum þarna inni með Vinnumálastofnun og atvinnuleysistryggingarnar. Ég verð að segja að mér hugnast það illa að hér sé lögð sú lína af hálfu fjármálaráðuneytisins að þetta þurfi að vera með þessum hætti, að við þurfum að ganga inn í aðra viðkvæma málaflokka. Um leið vil ég taka það fram að ég geri mér grein fyrir því að fjármagn er ekki auðsótt í ríkiskistuna þessi missirin.

Þá er einn þáttur hér sem kemur inn á að nú er félags- og tryggingamálanefnd að fjalla um frumvarp til breytinga á lögum um barnavernd. Þar hafa hagsmunaaðilar samtaka fatlaðs fólks lagt ríka áherslu á að það sé sérstaklega tekið fram að lögin nái til fatlaðra barna. Þarna eru deildar meiningar. Því barnaverndaryfirvöld segja að að sjálfsögðu nái barnaverndarlög yfir fötluð börn eins og önnur börn, það segi sig sjálft. En þó telja talsmenn fatlaðra barna, aðstandendur fatlaðra barna, hagsmunasamtök, að fötluð börn hafi í raun ekki notið verndar barnaverndarlaganna.

Í 6. gr. er fjallað um hvernig fara eigi með mál þegar verið er að brjóta á fötluðum einstaklingum. Nú kann það að vera brot af því tagi að viðkomandi einstaklingi bjóðist ekki ákveðin tegund þjónustu sem hann ætti að fá í raun og veru, en þá velti ég því fyrir mér þegar um barn er að ræða sem fær ekki þjónustu sem trúnaðarmaður telur að sé nauðsynleg fyrir þroska og framgang þess, er það þá ekki málefni sem barnaverndaryfirvöld eiga að láta sig varða?

Ég vildi því hér í þessari 1. umr. ræða örlítið um þetta mál af því þetta skarast við mál sem er í nefndinni núna. Ég tel það jákvætt því að þá er hægt að tryggja að réttindi fatlaðra barna séu tryggð væntanlega í báðum löggjöfunum, en þó að það sé tryggt að ef fötluð börn fá ekki þá þjónustu og það atlæti sem þeim ber sé það álitið alvarlegt mál af barnaverndaryfirvöldum. Það teldi ég að minnsta kosti styrkja stöðu og réttindi fatlaðra barna.

Ég ætla, frú forseti, ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég ætla bara að fagna því að frumvarpið er komið fram og vona að félags- og tryggingamálanefnd geti afgreitt það fljótlega og að við getum farið yfir þann þátt að við séum ekki með samþykkt frumvarpsins sjálfkrafa að skerða útgjöld til annarra mikilvægra velferðarmála.