Réttindagæsla fyrir fatlað fólk

Fimmtudaginn 14. apríl 2011, kl. 16:33:55 (0)


139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

728. mál
[16:33]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í raun kem ég ekki hingað upp til að spyrja hv. þm. Pétur Blöndal út í ræðu hans. Ég kem til þess að þakka honum fyrir samstarf okkar í félags- og tryggingamálanefnd. Nú er mikið talað um sundrungu og óeiningu í þinginu. Ég tel því fulla ástæðu til að koma hingað upp til að fara yfir vinnu okkar í félags- og tryggingamálanefnd. Við höfðum mjög skamman tíma til að flytja málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga, en gerðum það auðvitað á grundvelli mjög ítarlegrar og mikillar vinnu utan þingsins, og með samstilltum vilja þingmanna óháð flokkum gengu þau mál hratt og örugglega fyrir sig og við vönduðum mjög til þeirrar vinnu. Allir lögðu sitt af mörkum til að sú löggjöf sem við vorum að setja um málefni fatlaðs fólks yrði sem best úr garði gerð.