Fjöleignarhús

Fimmtudaginn 14. apríl 2011, kl. 17:14:46 (0)


139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

fjöleignarhús.

377. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég kom að í fyrra andsvari mínu er þetta að vissu leyti hið stóra álitamál í frumvarpinu. Það er talið að um fimm blindra- og leiðsöguhundar séu á Íslandi í dag. Verði fjöldinn sambærilegur á við Noreg yrðu þeir um 25. Bráðaofnæmi er ákaflega óalgengt þannig að við skulum vona að mjög ólíklegt sé að þegar búi tveir einstaklingar í sama húsnæði, annar með bráðaofnæmi og hinn við það að fara að fá sér blindrahund. Ég hugsa að oftast komi til þess í málum af þessu tagi að annar hvor aðilinn sé að flytja í húsið, og þá verður vinna kærunefndarinnar auðveldari.

Auðvitað er kærunefnd fjöleignarhúsamála ekki sérfræðingur í málum af þessu tagi. En hún á, ef því er að skipta, að leita lausnar að fengnu áliti ofnæmislækna, leiðsögu- og hjálparhundaþjálfara og sérfræðinga á öðrum sviðum. Þó að við höfum hér ekki geirneglda lausn á málinu eru hverfandi líkur á því að tveir einstaklingar í sama húsnæði séu í þeim aðstæðum að annar sé að fara að fá sér blindrahund og hinn sé með bráðahundaofnæmi. Gerist það, þá fer það fyrir kærunefnd fjöleignarhúsamála og verði sá aðili sem verður undir í því máli ósáttur getur hann að sjálfsögðu farið með mál sín fyrir dómstóla. Ég vona svo sannarlega að til þess þurfi þó ekki að koma.