Stjórnarráð Íslands

Þriðjudaginn 03. maí 2011, kl. 18:29:13 (0)


139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það kom fram hjá hv. þingmanni að það sem var samþykkt 2007 hafi verið hrossakaup og að forsætisráðherra hafi vald til að ákveða hversu mörg ráðuneytin eigi að vera. Hver er munurinn á því að ríkisstjórnin sem nú situr ákveði að hafa ráðuneytin tíu, fækka ráðherrum eða sameina ráðuneyti? Eru það ekki sömu hrossakaupin sem um er að ræða, svo við tölum um landbúnaðinn?

Varðandi sameiningu ráðuneyta og ekki sameiningu ráðuneyta er vitanlega alveg skelfilegt að hlusta á þennan málflutning hjá hæstv. forsætisráðherra og hv. þingmanni um að það búi ekkert á bak við það að sameina ráðuneyti. Auðvitað er það svo. Við skulum ekki vera í þessum feluleik. Hugsunin er að fela forsætisráðherra það alræðisvald að geta gert þetta fyrir hádegi, milli ellefu og hálftólf. Um það snýst þetta mál, að klára það ferli sem er búið að minnast á og snýr m.a. að Evrópusambandsbröltinu öllu saman. Þar er ég, frú forseti, að vitna í ályktun sem átti að gera á sameiginlegum fundi þingmannanefndar Evrópusambandsins og Íslands og var vitnað í fyrr í dag. Það er sjálfsagt mál að láta hæstv. forsætisráðherra fá afrit af þeim drögum sem þar átti að samþykkja. Eitt af því sem gerir það að verkum að sá er hér stendur er alfarið á móti frumvarpinu eins og það lítur út er að það á að færa forsætisráðherra — og það skiptir mig engu máli hvaða forsætisráðherra það er — vald til að ákveða hvernig ráðuneytunum er skipað og skipt. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort þingmaðurinn sé sáttur við þá tillögu að forsætisráðherra fái þetta vald og ef hv. þingmaður er sáttur við það, hefði hv. þingmaður þá samþykkt það einnig (Forseti hringir.) ef hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde hefði setið í þessum stóli?