Stjórnarráð Íslands

Miðvikudaginn 04. maí 2011, kl. 18:52:14 (0)


139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:52]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún var skynsamleg og snerti þessi mál sem mér eru hugleikin, að núverandi framkvæmdarvald, þeir sem sitja í ríkisstjórninni, er mjög áfram um að lama hér löggjafarvaldið. Þetta er einn þáttur í því.

Í fyrsta lagi gerir þessi ríkisstjórn afar miklar kröfur á Alþingi um að skera niður. Við vitum hvernig fjárlagafrumvörp eru unnin. Þau koma úr fjármálaráðuneyti og inn í þingið. Það eru miklar sparnaðarkröfur en Stjórnarráðið þenst út. Það hafa aldrei verið fleiri mannaráðningar í Stjórnarráðinu án auglýsingar en nú. Það er hálfóhuggulegt að standa hér langt fram á kvöld við að ræða þetta gjörónýta frumvarp. Væri ekki nær að forustumenn ríkisstjórnarinnar ræddu til dæmis við aðila vinnumarkaðarins? Samkvæmt fréttum er hæstv. fjármálaráðherra að ræða við aðila vinnumarkaðarins en hér stendur forsætisráðherra í þinginu og reynir að berja í gegn frumvarp sem snertir Stjórnarráðið í andstöðu við stjórnarandstöðuna og í andstöðu við einhverja í sinni eigin ríkisstjórn, a.m.k. einn ef ekki tvo. Þetta er einkennilegt, frú forseti.

Mig langar til að spyrja þingmanninn spurningar sem ég bar upp áðan. Hæstv. utanríkisráðherra varð uppvís að því að ónýta svar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til ESB fyrir nokkru og var staðinn að því að skrifa nýtt svar sjálfur. Telur þingmaðurinn að þetta sé hluti af því að gera þessi ráðuneyti andlitslaus þannig að málefni geti flætt á milli ráðuneyta eftir því hvar besti ráðherrann, að mati forsætisráðherra, er til að framfylgja einræðistöktunum á stefnu hennar? (Forseti hringir.)