139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

störf þingsins.

[14:24]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. AGS hefur í nýrri skýrslu staðfest að samdrátturinn hér á landi var meiri og hagvaxtarhorfur eru lakari en í öðrum löndum sem sjóðurinn aðstoðaði. Þetta var einmitt ástæðan fyrir því að við þremenningarnir sátum hjá við fjárlög þessa árs. Skilningsleysi stjórnvalda og kröfuhafa á nauðsyn þess að hraða skuldaaðlögun fyrirtækja og heimila er ein meginástæða fyrir slökum árangri efnahagsáætlunar AGS. Nýgerðir kjarasamningar gefa ekki tilefni til bjartsýni um að skilningur á efnahagsvandanum sé að aukast. Ekkert er minnst á aðgerðir til að tryggja að fjármálastofnanir afskrifi lán sín. Síðan á að leysa skuldbindingarvanda lífeyrissjóðanna með framlagi frá ríkinu og hækkun iðgjalda. Heimila á lífeyrissjóðunum að fjárfesta í óskráðum hlutabréfum í orkugeiranum til að leysa fjárfestingarvanda þeirra.

Frú forseti. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins átta sig ekki á að lífeyriskerfið er orðið allt of stórt fyrir íslenskt efnahagslíf. Lífeyrissjóðirnir ná ekki lengur 3,5% raunávöxtun vegna skorts á arðbærum fjárfestingarkostum nema ríki og sveitarfélög selji bréf í orkufyrirtækjunum með góðum afslætti og fari út í rándýrar einkaframkvæmdir. Sjóðsmyndunarkerfi hentar ekki í mjög óstöðugu efnahagslífi því eignir tapast og ávöxtun hrynur oftar við slíkar aðstæður. Verðtryggingin hefur varið eignir lífeyrissjóðanna en er að gera sjóðfélagana sem byggðu upp sjóðina að öreigum.

Frú forseti. Við verðum að minnka stærð lífeyrissjóðanna með afnámi verðtryggingar og skattlagningu á inngreiðslu til að fjármagna velferðina í landinu.