Utanríkis- og alþjóðamál

Mánudaginn 16. maí 2011, kl. 16:00:11 (0)


139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:00]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hraðanum í þessum viðræðum ræður ríkisstjórnin að verulegu leyti. Samninganefndin undir forsjá hæstv. ráðherra getur ráðið hraðanum í viðræðunum og ég ætla að leyfa mér að spá því að það muni ekki henta ráðherranum að hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna hér á næsta ári eins og allan tímann hefur verið gefið í skyn að hægt væri að gera. Við skulum ekki gleyma því að kjörtímabilið er fjögur ár og við höfum rætt um það frá upphafi að vegna þess að við værum þegar komin inn í EES-samstarfið ætti þetta að vera tiltölulega einfalt mál. Rýnivinnunni er lokið og skýrslurnar eiga að liggja fyrir strax í haust. Þá sjáum við skilyrði Evrópusambandsins fyrir áframhaldandi viðræðum og dugi mönnum ekki hálft ár eða rúmlega það til að komast til botns í einstökum málum er augljóst að menn eru bara að reyna að tefja og skjóta sér undan því að horfast í augu við kjósendur með það í höndunum sem menn hafa þá.