Tannvernd barna

Fimmtudaginn 19. maí 2011, kl. 10:47:12 (0)


139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

tannvernd barna.

[10:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég beini spurningum til hæstv. velferðarráðherra í tengslum við tannvernd barna en ég hef trú á því að við öll hér inni viljum efla og auka tannvernd barna okkar.

Nú er hins vegar auglýst, m.a. úti á landsbyggðinni, að boðið sé upp á ókeypis tannlæknaþjónustu fyrir börn efnaminni foreldra og er Háskóla Íslands, þ.e. tannlæknadeildinni, ætlað að sjá um það verk. Ég tel um leið og við segjum að það sé gott og gilt að efla tannverndina að þessi leið sé varhugaverð. Ef menn vilja efla Háskóla Íslands og tannlæknadeildina er þetta ekki rétta leiðin til þess og ef menn vilja auka og efla tannvernd barna er þetta ekki heldur rétta leiðin til þess.

Ég vil spyrja ráðherra í fyrsta lagi: Af hverju í ósköpunum var þetta verkefni ekki falið sjálfstætt starfandi tannlæknum og greiðslur síðan tryggðar úr Sjúkratryggingum? Þetta á að vera auðvelt. Nú eru öll þessi málefni undir sama þaki þannig að það ættu að vera hæg heimatökin hjá ráðherra að ákvarða þetta.

Í öðru lagi: Er ráðherra sammála því að senda barn af landsbyggðinni, t.d. frá Ísafirði, frá Akureyri, frá Húsavík, með ærnum tilkostnaði, hugsanlega aukakostnaði upp á allt að 60 þús. kr. vegna fylgdarmanns til Reykjavíkur, til að fá tannlæknaþjónustu? Er ráðherra sáttur við þetta verklag, fyrir utan þá hættu sem það býður heim varðandi einelti í skólum, að taka barn úr skóla t.d. á Ísafirði, á Húsavík og senda það suður af því að það hefur ekki efni á að leita til tannlæknis á heimasvæði?

Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvaðan koma peningarnir? Hvaðan kemur fjármagnið, þær 150 millj. sem þetta á að kosta? Er þetta tekið úr öðrum sjóðum, þ.e. úr öðrum potti sem á að fara til tannlækninga? Bitnar þetta á öðrum eða er um nýtt fjármagn og nýja peninga að ræða?