Tannvernd barna

Fimmtudaginn 19. maí 2011, kl. 10:51:32 (0)


139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

tannvernd barna.

[10:51]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég saknaði nú svara við spurningum mínum. En ef þetta er neyðarástand er ekki verið að bregðast við varðandi erfiða tannheilsu barnanna. Það er ekki verið að horfa á börnin heldur kerfið. Hagsmunir kerfisins ganga framar tannheilsu barna og það er hættulegt upp á félagslegt umhverfi að taka börn úr sínu heimasvæði, úr skólum, og þar með bjóða hættunni heim að þau fái þann stimpil að þau séu fátæk eins og rætt er um.

Það kemur mér ekki á óvart að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þessi vinstri stjórn, skuli feta þá braut að ríkisvæða tannlækningar. Og það sem hæstv. ráðherra er að segja hér, að það náist ekki samningar við tannlækna. Hvers konar fullyrðingar eru þetta? Á þá bara að setja allt heila klabbið undir Háskóla Íslands af því að ekki er hægt að semja við tannlækna? Ráðherra ber skylda til að ná bæði samningum við tannlækna en ekki síst að hafa hagsmuni barnanna að leiðarljósi. Þessi lausn er einungis til þess gerð að friðþægja þessa ríkisstjórn. (Forseti hringir.) Þetta er ekki heildarlausn til framtíðar fyrir tannheilsu barna.