Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 15:43:43 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef mikla tilhneigingu til að reyna að setja þetta í enn víðara samhengi. Prófessor Þóroddur Bjarnason, sem ég vitnaði til áðan, hefur bent á að þegar við skoðum annars vegar uppruna skattteknanna og síðan ráðstöfun þeirra halli mjög á landsbyggðina. Þetta er gagnstætt því sem menn hafa verið að reyna að halda fram og gagnstætt allri umræðunni um byggðapólitík og kjördæmapot og það allt saman sem við heyrum stöðugt, m.a. úr þessum ræðustóli.

Það sem ég tel að við þurfum að gera er að skoða þessi mál í samhengi. Nú er það að gerast að verið er að leggja auknar byrðar á atvinnugrein sem nánast að öllu leyti á uppruna sinn á landsbyggðinni, tekjuöflunin á uppruna þar, og þá hljótum við að skoða þessi mál í þessu samhengi: Viljum við halda áfram á þessari braut, viljum við auka þetta vægi, það misvægi eins og þarna er, eða viljum við með einhverjum hætti reyna að snúa til baka?

Ég er síðan sammála hv. þingmanni um það, og það er eitt af því sem mér finnst að landsbyggðin geti gert kröfu til, að það hefur orðið mikil hagræðing í sjávarútveginum, þjóðarbúið hefur notið þess í heild, það hefur hins vegar komið hart niður á (Forseti hringir.) einstökum stöðum og mér finnst þess vegna að slík svæði eigi ákveðna heimtingu á að fá það borið uppi með sérstökum hætti.