Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 18:32:37 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargott svar. Mig langar að spyrja hv. þingmann um þær hugmyndir sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður hv. sjávarútvegsnefndar, viðraði hér áðan. Hún sagði það sína skoðun, og ætlaði að beita sér fyrir því að það yrði gert í hv. sjávarútvegsnefnd, að við ættum að breyta úthlutun og þeim ójöfnuði sem á sér stað í dag á milli landshlutanna, þessara fjögurra svæða. Skoðun hennar er sú að það eigi að deila bara í fjöldann. Þegar vitað er hversu margir bátar sækja um strandveiðileyfi eiga menn bara að deila í fjöldann og úthluta síðan á dag. Þá yrði stigið það skref að menn mundu hætta þessari keppni, þ.e. þá fengju viðkomandi bátar ákveðið marga daga miðað við heildarmagnið sem er inni.

Ég tel að þetta verði jákvætt skref gagnvart til að mynda öryggismálum sjómanna. Hver er skoðun hv. þingmanns á þessu? Kemur að hans mati til greina að skoða það að gera þetta svona? Þá er líka hægt að jafna sóknina og gera hana skynsamlegri. En fyrst og fremst snýr þetta að öryggismálum sjómanna. Aðalatriðið er þó að þessir dagar yrðu aldrei framseljanlegir.