Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 18:42:58 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eins og fyrirrennari minn í ræðustól tek ég undir það sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði varðandi bæði þá sem eru á mælendaskrá og þá sem eru í húsi til að ræða þetta gríðarlega mikla hagsmunamál sem vel að merkja er ekki búið að meta út frá efnahagslegum og hagfræðilegum forsendum hvaða þýðingu hefur fyrir þjóðarbúið. Ég vek hins vegar athygli á því að til að mynda hæstv. forsætisráðherra var hér í dag og greiddi atkvæði með kvöldfundi en hefur síðan ekki séð sér fært að vera hér í húsi. Engu að síður tjáði hún sig mjög fjálglega um helgina um þessi mál, að mínu mati í heldur veruleikafirrtri ræðu. Ég held í ljósi þess, ekki síst þeirra athugasemda sem settar hafa verið fram, m.a. um það að frumvarpið stangist hugsanlega á við stjórnarskrá, um deildar meiningar ráðuneyta, annars vegar fjármálaráðuneytis og hins vegar sjávarútvegsráðuneytis, að forsætisráðherra ætti að vera hér í salnum en tjá sig ekki ávallt um þetta mál úti í bæ. Hvernig væri að hæstv. forsætisráðherra kæmi hingað og væri í salnum? (Forseti hringir.) Nógu mikið hefur hæstv. forsætisráðherra tjáð sig um þetta mikilvæga mál, þetta vonda mál, annars staðar en hér í þinginu.