Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 18:29:19 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í vinnu okkar framsóknarmanna að sjávarútvegsstefnu flokksins héldum við m.a. sjávarútvegsráðstefnu og fengum til okkar bankastjórann. Það kom alveg skýrt fram í máli hans að hann óttaðist að þær breytingar eða ef gerðar yrðu miklar breytingar á því kerfi sem við þekkjum í dag, mundi það hafa þau áhrif á bankana að þeir stæðu verr og gætu þar af leiðandi með lakari hætti komið til móts við t.d. skuldug heimili, sem er auðvitað eins og hv. þingmaður nefndi ákaflega mikilvægt. Reyndar er áhugavert að horfa upp á það að Landsbankinn skuli reyna að fara í einhvers konar almenna aðgerð núna tveimur og hálfu ári eftir að ýmsir, eins og við framsóknarmenn og fleiri, hafa kalla eftir, að það væri skynsamlegasta leiðin til að fara í afskriftir á skuldum heimila og reyndar fyrirtækja, að það skuli fyrst núna vera komið upp á borðið. En auðvitað er beint samhengi á milli þessara hluta.