Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 23:52:31 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:52]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það eru athyglisverðar tilgátur sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson varpar hér fram rétt undir miðnættið. Áður en ég fer að gefa álit mitt á þeim kenningum hv. þingmanns held ég að það væri reynandi fyrir okkur í minni hlutanum að reyna að særa fram viðhorf þeirra stjórnarliða sem eiga sæti í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd áður en málið fer þar fram.

Ég tel mjög mikilvægt að fólk viti að hverju það gangi þegar málið fer héðan úr þingsal og í hvaða anda menn ætla að vinna það. Ég gat ekki heyrt þennan ofbeldistón sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gaf í skyn að væri í samfylkingarmönnum og í sumum í herliði Vinstri grænna, ég gat ekki heyrt þann tón hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hefur staðið sig eins og hetja og setið alla þessa umræðu. Ég spyr því (Forseti hringir.) hv. þingmann hvort hann hafi eitthvað fyrir sér í þeirri samsæriskenningu (Forseti hringir.) sem hann hefur sett fram.