Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 15:35:07 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni fannst leiðinlegt að það skyldi verða sagt í umræðunni bæði innan þingsins og í samfélaginu að stjórnarandstæðingar einir hefðu tekið til máls í þessari umræðu. Ég hygg að ástæðan fyrir því kunni að vera sú að þeir stjórnarliðar sem hafa tekið til máls í umræðunni hafa nánast allir haldið uppi mikilli gagnrýni á mjög mikilvæga þætti í þessum frumvörpum þannig að það er ekkert óeðlilegt að menn hafi kannski misskilið þetta svo að hér töluðu stjórnarandstæðingar þegar þeir hafa tekið til máls í þessu máli.

Ég spyr hv. þingmann um tvö atriði sem snerta þessi frumvörp. Í fyrsta lagi hefur hv. þingmaður sagt að hann telji að núna þurfi að skoða sérstaklega hverjir hafa fengið strandveiðileyfi. Til hvers var hv. þingmaður að vísa í því sambandi? Í annan stað spyr ég hvort hann telji þá að úthlutun veiðigjaldsins eigi að vera með þeim hætti að það renni algjörlega og eingöngu til ríkissjóðs en að horfið verði frá þeim áformum sem eru í frumvarpinu um að hluti þessa gjalds renni til sveitarfélaganna.