Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 15:40:17 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:40]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það eru kunn blíðmæli um allt of máluga krakka að kalla þau bullukolla. Þetta blíðmæli á við um hv. þm. Helga Hjörvar sem ferst ekki vel úr hendi að fjalla um (Forseti hringir.) fiskveiðimál, virðulegi forseti.

(Forseti (KLM): Ég bið hv. þingmann að gæta orða sinna.)

Ég tala að vanda íslenskt mál, mannamál, og fæst ekki til að tala enska tungu eða einhverjar slettur í ræðustól, virðulegi forseti. (Forseti hringir.)

(Forseti (KLM): Forseti er ekki að biðja um að mál verði flutt á enskri tungu.)

Það var grátbroslegt að hlusta á hv. þm. Helga Hjörvar skilgreina Framsóknarflokkinn, fara að hugsa fyrir hann, flokk sem er búinn að vera einn af burðarásum íslenskrar pólitíkur í 95 ár. Það er ekki hægt að segja það um ríkisstjórnarflokkana en það er hægt að segja það um Framsóknarflokkinn. Þegar hann lemur sífellt á því að Sjálfstæðisflokkurinn vilji ekki breytingar í kvótakerfinu fer hann vísvitandi með rangt mál og því miður er ekki gerð athugasemd við það af hálfu hæstv. forseta.

Framlegð í útgerðinni í dag er komin til vegna þess að þeir aðilar sem eru í greininni hafa keypt aðra út úr henni. Eftir sitja mörg rótgróin og vel rekin fyrirtæki með meiri skuldir en menn vildu. Þegar menn sjá svo fram á að veiðin verði aukin ætla menn að dreifa þeim afla í ýmsa potta sem gera ekkert annað en að skapa sundrungu og spillingu.

Miðað við það frumvarp sem komið er fram, að menn fái ekki að njóta árangursins nema að hálfu og spurningar um endalausar breytingar á þeim reglum sem úthlutun fer eftir, fara menn að fiska sem mest á sem skemmstum tíma og klára þann litla kvóta sem þeir hafa, binda svo bátana og skilja markaðina og fiskvinnslurnar eftir fisklausar. Er það hagkvæmt? Þegar smábátarnir voru teknir inn í krókaaflamarkskerfið héldu margir að þá væri komið að endapunktatilfærslum úr stóra aflamarkinu. En enn og aftur skal ráðist á þá sem sitja uppi með skuldirnar vegna hagræðingarinnar.

Hvaða fyrirtæki hafa sýnt mestan styrk í kjölfar bankahrunsins? Það eru sjávarútvegsfyrirtækin og útgerðirnar sem nú á aftur að ráðast á. Grundvöllur fyrir lífinu í landinu er að atvinna sé til staðar og að sjávarútvegurinn gangi á hagkvæman hátt. Hvar var allt þetta fólk sem vill komast inn í sjávarútveginn þegar 25–30 fyrirtæki voru á hlutabréfamarkaði ekki alls fyrir löngu? Þá vildi enginn kaupa bréf í íslenskum sjávarútvegi, en það skal ráðist á þá sem sitja uppi með skuldir vegna hagræðingarinnar.

Það má velta mörgu fyrir sér. Hverjir áttu stærstan hlut í hverju sjávarútvegsfyrirtæki vítt og breitt um landið? Það voru olíufélög og tryggingafélög og það var ekki vegna þess að þau vildu eiga hann, heldur vegna gríðarlegra skulda við þau félög. Skuldunum var breytt í hlutafé. Þetta er gullmolinn sem verið er að tala um. Ég óttast að þegar útgerðir sem hafa skuldsett sig vegna þeirrar hagræðingar sem greinin hefur gengið í gegnum fái ekki að njóta kvótaaukningarinnar sem koma á á á næstunni muni þau mörg fara í þrot og þar af leiðandi hætta rekstri.

Það þarf að spyrja þjónustuaðila, netagerðarverkstæði, vélsmiðjur o.fl. hvort það gangi betur að rukka fyrir þjónustu fyrir eða eftir kvótakerfi. Það eru margar spurningar uppi og er talað af mikilli vanþekkingu um þetta mál. Ég vil benda á eitt smáatriði í frumvarpinu sem þarf að skoða en sýnir hvað þetta er flausturslega unnið. Það varðar meðafla á síld, sérstaklega útgerðir og vinnslur á Austurlandi. Í frumvarpinu hefur ráðherra til ráðstöfunar og sérstakrar úthlutunar 2 þús. lestir af sumargotssíld. Þarna þarf einnig að gera ráð fyrir 2 þús. lestum af norsk-íslenskri síld en þessar tvær síldartegundir eru til dæmis stöðugur meðafli með makríl. Þetta er sérstaklega mikilvægt í norsk-íslensku síldinni þar sem samþjöppun aflaheimilda er mjög mikil en 11 aðilar eru með allar heimildirnar. Það mundi leysa nokkurn vanda hvað varðar meðafla hjá þeim sem litlar eða engar heimildir hafa ef einhver pottur væri til staðar, þó að ég sé ekki að mæla með pottum, í norsk-íslensku síldinni. Þetta þarf að hugsa jafnhliða og rökrétt, það er ekki bara íslenska sumargotssíldin, það er líka norsk-íslenska síldin. Og menn breyta ekki þessum hlutum.

Á Austurvelli er núna mikið af veiðibjöllu, virðulegi forseti. Af hverju er veiðibjallan á Austurvelli? Það er vegna þess að það vantar sandsíli í sjóinn og þá kemur hún í borgina á augabragði. Þegar sílið kemur (Forseti hringir.) fer hún aftur út á sjó þannig að við skulum læra af reynslunni og taka tillit til hennar.