Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 16:47:56 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er ósanngjarnt að leggja stórar spurningar fyrir hv. þingmann og láta hann hafa eina mínútu til að svara, þannig að mig langar aðeins að halda áfram með þetta mál.

Það liggur fyrir að grundvöllur þessa sóknarmarkskerfis, eins og þingmaðurinn kom inn á, er að mikil fjárfesting er sett fram, mikil fjölgun í bátum. Ef settar verða takmarkanir og einhver mörk munu menn væntanlega reyna að fara í kringum þau, hafa stórar vélar til að geta komist eins langt og hægt er. Niðurstaðan mun verða sú að menn þurfi meiri kvóta og meiri aflaheimildir til að standa undir fjárfestingunni og þá verður hrópað eftir því að stækka þennan pott og fjölga bátunum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það hvort hann skilji markmið frumvarpsins, hvort það sé að auka arðsemi greinarinnar og þjóðarinnar með tilliti til þessa kerfis og (Forseti hringir.) þó sérstaklega með tilliti til þess að fara að fjölga svona mikið minnstu bátunum.