139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það styrkir ekki sjávarbyggðirnar að setja þá atvinnugrein, sem er mikilvægust af öllum atvinnugreinum fyrir sjávarbyggðirnar, í fullkomið uppnám, halda henni í algjörri óvissu.

Við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra erum reyndar sammála um að sjávarútvegskerfið verði að vera til þess fallið að halda byggð sem víðast í landinu. Við viljum ekki að veiðiheimildir safnist allar saman á einn eða tvo eða fáa staði eða á fáar útgerðir. Það er eitt af því sem við þurfum að huga að sérstaklega þegar við leitumst við að bæta sjávarútvegskerfið. En að setja kerfið í slíkt uppnám að ekkert sjávarútvegsfyrirtæki viti í hvaða stöðu það verður á morgun, hvort það verður rekstrarhæft, er augljóslega ekki til þess fallið að bæta stöðu (Forseti hringir.) sjávarbyggðanna sem reiða sig á þessi fyrirtæki.