Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 03. júní 2011, kl. 15:36:32 (0)


139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[15:36]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég kannast reyndar ekkert við að hafa fjallað mikið um fullvinnslu afurða og nauðsyn þess að takmarka það að fiskur fari héðan í gámum. Ég get hins vegar alveg tekið undir það, og það er í tillögum okkar framsóknarmanna, að talsverðu púðri sé eytt í að efla nýsköpun á því sviði að finna nýjar tegundir og nýta þær. Nefna má fjölmarga þætti í því sambandi, ekki síst við strendur landsins. En einnig má tala um að bæta umgengnina, að engu sé hent, án þess að ég sé að gera lítið úr þeim sem vel gera á því sviði. Ég tel að þar sé talsvert verk að vinna og gæti bæði skapað miklar gjaldeyristekjur og arð og ekki síður störf.

Maður veltir því fyrir sér í sambandi við þetta frumvarp, og ég hef ekki fengið nægilega greinargóð svör við því í umræðunum í dag og ekki heldur frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hvernig hægt sé að leggja fram plagg upp á fjölmargar blaðsíður með talsverðri greinargerð án þess að það liggi skýrt fyrir að verið sé að bæta rekstrarstöðu greinarinnar, að verið sé að koma í veg fyrir að vegið sé að henni. Það er augljóst að verið er að grauta í potti, verið að færa aflaheimildir frá þeim sem hafa þær í dag og til einhverra sem ekki hafa þær, og það virðist blasa við að það skapar hvorki ný störf né myndar nýjan arð að standa þannig að málum.