Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 03. júní 2011, kl. 18:17:36 (0)


139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt. ETS-heimildakerfið er spegilmynd íslenska sjávarútvegskerfisins eins og það er í dag. Ekki nóg með það heldur er það yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að leggja niður það kerfi sem hér var því að fyrra kerfið byggði á mengunarreynslu þeirra fyrirtækja sem starfa hér á landi og losa gróðurhúsalofttegundir og ekki nóg með það heldur var litið svo á að ríkið ætti þær heimildir. Þessar heimildir hefur íslenska ríkið, undir forustu þessarar ríkisstjórnar, gefið frá sér, auk íslenska ákvæðisins sem var metið á 15 milljarða árið 2007 fyrir hrun. Nú er verið að renna okkur inn í ETS-kerfið sem leiðir það af sér að mengunarkvótar okkar eru verðlausir og úthlutunin á í framtíðinni að fara fram á þann hátt að fyrirtækin fá í upphafi kvótana gefna og svo bera þeir sama yfirbragð og eign því þeir eru framseljanlegir, hægt að veðsetja þá, þeir erfast og þeir eru til skipta í hjónaskilnuðum eins og í núverandi sjávarútvegskerfi.