Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 03. júní 2011, kl. 18:51:34 (0)


139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að sá hræðsluáróður sem hefur verið settur í gang sé að fullu ástæðulaus. Ég tel að þeir sem eru með slíkan hræðsluáróður (Gripið fram í.) þurfi að gera miklu betur grein fyrir því hvað valdi því að hætta sé á að menn missi vinnu eða skipin verði bundin í höfn. Ég tel að enginn hafi lagt fram rök fyrir því að þetta þurfi að gerast. Aftur á móti (Gripið fram í.) hafa síðustu 20 ár skip verið bundin við bryggju, fólk misst atvinnu vítt og breitt um landið og það er ekki því kerfi að kenna sem við erum að boða með þessu frumvarpi hér.