Losun gróðurhúsalofttegunda

Fimmtudaginn 09. júní 2011, kl. 14:40:14 (0)


139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[14:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka framsögumanni meiri hluta umhverfisnefndar, hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, fyrir framsöguna. Ég vildi fyrst og fremst lýsa því yfir að ég tel rétt fyrir þingið í þeirri stöðu sem nú er uppi að samþykkja þetta mál út frá samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja sem undir þetta heyra. Ég legg áherslu á að það er mikilvægt að þetta mál fái skjótan framgang í þinginu.

Ég get tekið undir ýmsar vangaveltur og áhyggjur sem fram hafa komið, m.a. hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að þessu máli ljúki núna þannig að íslensk flugfélög geti nýtt sér aðgang að þessum kvótum og eins og fram hefur komið hér sitji þar með við sama borð og samkeppnisaðilar í Evrópu. Við getum haft alls konar skoðanir á því hvort þarna hafi verið farin rétt leið og menn hafa vísað til þess að það hafi verið ákvörðun á sínum tíma að Ísland leitaði eftir að eiga aðild að þessum pottum Evrópusambandsins, væri í samfloti með þeim í þessu tilliti frekar en að leitast við að ná fram einhvers konar framlengingu á hinu svokallaða íslenska ákvæði í Kyoto sem er það fyrirkomulag sem við búum við um þessar mundir. Þar erum við einfaldlega í þeirri stöðu að ákvarðanir hafa verið teknar á vettvangi íslenskra stjórnvalda á undanförnum árum og úr því sem komið er tel ég óhjákvæmilegt að við samþykkjum þetta frumvarp eins og það liggur fyrir.