Fullgilding Árósasamnings um aðgang að upplýsingum o.fl.

Fimmtudaginn 09. júní 2011, kl. 19:28:07 (0)


139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

fullgilding Árósasamnings um aðgang að upplýsingum o.fl.

678. mál
[19:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá meiri hluta utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu Árósasamnings um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.

Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum en sá samningur var gerður í Árósum 25. júní 1998 og hefur verið nefndur Árósasamningurinn. Það kemur fram í athugasemdum með þessari tillögu að Árósasamningurinn sé ný tegund samnings um umhverfismál sem tengi saman umhverfisrétt og mannréttindi. Þannig staðfestir samningurinn að sjálfbærri þróun verður ekki náð án aðildar allra hagsmunaaðila og tengir saman ábyrgð stjórnvalda og umhverfisvernd.

Rétt er að taka það fram að hér er um að ræða heimild til ríkisstjórnarinnar til að fullgilda þennan samning en samhliða honum hefur umhverfisnefnd til meðferðar frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins og frumvarp til laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem samningurinn leggur aðildarríkjum á herðar. Efnisatriði þessa máls koma því fyrst og fremst til umfjöllunar við umfjöllun um frumvörpin sem eru til meðferðar í umhverfisnefnd en hér er um að ræða heimild ríkisstjórnarinnar til að fullgilda samninginn

Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.

Björgvin G. Sigurðsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta nefndarálit rita Árni Þór Sigurðsson, Birgitta Jónsdóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Helgi Hjörvar og Valgerður Bjarnadóttir.