Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 19:20:46 (0)


139. löggjafarþing — 154. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:20]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Svo einkennilegt sem það er er þetta frumvarp sem fjallar um sjálfa undirstöðuatvinnugrein okkar unnið á handahlaupum í þinginu á síðustu sólarhringum vorþings. Hér er verið að leggja af stað í mikla óvissuferð með sjávarútveginn, fjöregg okkar íslensku þjóðar, og þeir sem stjórna ferðinni vita tæpast hvaðan þeir eru að koma í þessum efnum og hafa ekki hugmynd um til hvers þetta frumvarp muni leiða. Það hefur fengið ótrúlega óblíðar móttökur, svo óblíðar í rauninni að meiri hluti nefndarinnar sá sig knúinn til þess í einu af nefndarálitum sínum að varpa köpuryrðum að þessum umsagnaraðilum. Hverri einustu grein var breytt við 2. umr. málsins nema auðvitað þeim greinum sem var hent út í heilu lagi. Ég held að menn ættu að læra af þessum vinnubrögðum. Það var ágætlega lagt af stað á sínum tíma með þeirri endurskoðunarnefnd sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði, en síðan hófst hið pólitíska tog á milli stjórnarflokkanna og afraksturinn er þetta hörmulega (Forseti hringir.) mál.