Leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis

Föstudaginn 02. september 2011, kl. 14:42:12 (0)


139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[14:42]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Eins og hans var von og vísa komst hann að sjálfsögðu ekki hjá því að tengja Sjálfstæðisflokkinn við þetta ágæta nefndarálit. Ég vænti þess að hv. þm. Jón Gunnarsson svari því og geri grein fyrir afstöðu sinni og hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar í ræðu hér á eftir.

Það er alveg rétt að mikið gekk á hér í vor og sérstaklega í tengslum við fiskveiðistjórnarfrumvörpin. Ég get vitnað um það að hv. þingmaður lagði sitt af mörkum í því að vinda ofan af þeirri vitleysu sem þar var á ferðinni. Það vekur mann hins vegar til umhugsunar um hvernig störfum þingsins er háttað undir lok starfstímans þegar mál sem þetta fellur á milli skips og bryggju í þeim darraðardansi sem á sér stað í þinginu á síðustu metrunum fyrir þinglok. Það er alvarlegt umhugsunarefni fyrir forseta, ásamt okkur þingmönnum öllum, með hvaða hætti skipulag starfsins er hér þegar svo stórt og mikilvægt hagsmunamál Íslendinga líður fyrir það að skipulagið og orrahríðin er slík að ekki er nokkur einasta yfirsýn yfir það með hvaða hætti ljúka á stærstu og mikilvægustu málunum sem komið hafa fram á þinginu. Ég tel þetta mál vera þess eðlis. Hættan liggur kannski líka í því að með öllu svona tímatapi aukast líkurnar á því að við náum ekki jafngóðri stöðu á svæðinu og ella hefði orðið.