Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Föstudaginn 02. september 2011, kl. 16:42:51 (0)


139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Raunar geri ég ráð fyrir því að hv. þm. Mörður Árnason þakki hv. þingmanni líka og andsvörin nýtist þá til sameiginlegra þakkarræðna fyrir störf hvers annars.

Það er hárrétt að skilningur okkar í minni hlutanum er sá að hver sem er geti kært hvað sem er, sem tiltekið er í þessu frumvarpi. Ekkert skilyrði er um ríkisfang. Eina skilyrðið sem sett er er að kæran þarf að vera á íslensku þannig að í villtustu draumum manna getum við gert ráð fyrir því að þegar hinn ágæti Kínverji Nubo hefur framkvæmdir á Grímsstöðum á Fjöllum geti menn víða að í veröldinni kært, ef málið fer í það ferli, með því eina skilyrði að kæran sé á okkar ástkæra, ylhýra máli.