Ummæli forseta Íslands

Mánudaginn 12. september 2011, kl. 10:50:24 (0)


139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

ummæli forseta Íslands.

[10:50]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Yfirlýsing forseta Íslands í erlendum fjölmiðlum nú fyrir skemmstu um frammistöðu íslenskra stjórnvalda í Icesave-málinu hefur vakið mikla athygli. Forsetinn kýs að ráðast harkalega að ríkisstjórninni og því hvernig haldið var á Icesave-málinu árið 2009 og ber á hana að hafa brugðist alvarlega skyldum sínum gagnvart íslenskum borgurum.

Ég er hjartanlega sammála forsetanum um að stjórnvöld hafi brugðist illilega í samningaviðræðum á þessum tíma en það er ekki kjarni málsins að þessu sinni heldur hitt hverjar skyldur embættis forseta Íslands eru og hvaða skoðun hæstv. forsætisráðherra hefur á því þegar forseti lýðveldisins veitist svo að stjórnvöldum eins og þarna var gert.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra þriggja spurninga:

1. Hvaða skoðun hefur hæstv. forsætisráðherra á þessum ummælum forseta?

2. Telur hæstv. forsætisráðherra að forseti Íslands hafi farið út fyrir umboð sitt svo sem það er skilgreint og túlkað gagnvart stjórnarskrá með ummælum sínum?

3. Ætlar hæstv. forsætisráðherra að láta það fram hjá sér fara að forseti saki ríkisstjórnina um að gæta ekki hagsmuna þjóðarinnar eða er það að meinalausu fyrir hæstv. ríkisstjórn að forseti tali svo í hennar nafni utan lands?