Breytingar á Lagarfljóti

Mánudaginn 12. september 2011, kl. 11:01:32 (0)


139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

breytingar á Lagarfljóti.

[11:01]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Í fréttum Ríkisútvarpsins hafa síðustu daga verið tíðindi af lífríkinu í Lagarfljóti. Þar er augljós hnignun. Fljótið er kaldara en áður og miklu gruggugra og raunar ekki sama fljótið. Það var auðvitað ekki óvænt því að í það hefur verið veitt mestu jökulá íslenskri.

Það sem vekur athygli er forsaga málsins. Í úrskurði Skipulagsstofnunar fyrir um það bil 10 árum var talað um kólnun fljótsins og svifaur í því sem hefði mikil áhrif á lífríki þess.

Þar segir, með leyfi forseta, að Skipulagsstofnun hafi þá talið að vegna breytinganna „verði lífríki mjög óstöðugt og áhrif á það veruleg“.

Það sem gerðist þá var að umhverfisráðherra tók úrskurð Skipulagsstofnunar og sneri honum við. Þá sagði þáverandi umhverfisráðherra með stuðningi þáverandi umhverfisráðuneytis eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Vegna eðlis Lagarfljóts og lífríkis þess er það mat ráðuneytisins að breytingar á svifaur muni ekki valda miklum áhrifum á lífríki vatnsins.“

Við sjáum nú hvernig það fór. Reyndar hafa lög breyst að því leyti að umhverfisráðherra kveður ekki lengur upp úrskurð af þessu tagi. En sú spurning er áleitin hvort þessi úrskurður þarfnist ekki frekari rannsóknar sjálfur miðað við það sem komið hefur í ljós. Hvernig varð hann til og hvernig datt mönnum í umhverfisráðuneytinu, ráðherranum og öðrum, í hug að slá fram staðhæfingum af þessu tagi án nokkurrar vísindalegrar undirstöðu? Það dregur úr trúverðugleika umhverfisráðuneytisins þrátt fyrir breytt lög. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. núverandi umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur.