Stjórnarráð Íslands

Mánudaginn 12. september 2011, kl. 12:33:14 (0)


139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:33]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég er komin í þennan ræðustól fyrst og fremst til að lýsa mikilli ánægju með þær breytingar sem hv. allsherjarnefnd hefur gert á frumvarpinu um Stjórnarráðið. Ég hef þá trú að það muni skila okkur betri stjórnsýslu, að það muni skerpa á ábyrgð bæði embættismanna og ráðherra og að það muni veita okkur nauðsynlegan sveigjanleika í Stjórnarráðinu.

Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með viðbrögð hv. stjórnarandstöðu, bæði í nefndinni og í umræðum í þinginu og kem kannski aðeins betur að því hér á eftir.

Ég lýsti því við 1. umr. að ég hlakkaði mikið til umfjöllunar í nefndinni, ekki síst vegna þess að ég lýsti tilteknum fyrirvörum við frumvarpið eins og það lá fyrir þá. Ég taldi það ekki ganga nógu langt í nokkrum atriðum og mér fannst vanta á að tekið væri á hugmyndum um gerbreytingu á Stjórnarráðinu, svo sem eins og því að ráðherrar kæmu og færu með „kabínetti“ eða með sérstökum hópi pólitískra aðstoðarmanna eða ráðgjafa, þar með talinna ráðuneytisstjóra eins og við þekkjum víða í löndunum í kringum okkur.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson spurði um afstöðu mína eftir umfjöllun í nefndinni og ég verð að segja að því miður hefur þessi hugmynd mín ekki hlotið undirtektir. Hún er kannski bara of róttæk í bili og því ætla ég ekki endilega að halda henni til streitu. Ég get ekki sagt að við höfum rætt hana mikið en ég hef ekki fengið miklar undirtektir við þetta mál mitt.

Ég tel mjög mikilvægt að styrkja stöðu ráðherra til að sinna pólitískri stefnumótun í ráðuneytunum. Starf og hlutverk ráðherra er í reynd tvíþætt. Þeir hafa annars vegar stjórnsýsluhlutverk, og það er áréttað í frumvarpinu að ráðuneytið sé skrifstofa ráðherrans, en hins vegar hefur ráðherrann skyldum að gegna í pólitískri stefnumótun sem Alþingi ákveður hver er og sem er síðan aftur ákveðið í þingkosningum ekki sjaldnar en á fjögurra ára fresti hver vera skuli. Það hefur verið misvægi á þessum tveimur hlutverkum og það sem meira er að hin pólitíska stefnumótun hefur kannski að einhverju leyti farið fram utan ráðuneyta með aðkeyptum sérfræðingum eins og tíðkaðist nú mjög á tímabilinu 2007 til loka 2008 og/eða þá að menn hafa verið að ráða inn í ráðuneytin til sín aðstoðarmenn sem ekki hafa haft þá stöðu heldur gegnt öðrum nöfnum eins og hér hefur verið nefnt. Ég kem kannski aðeins að því hér á eftir.

Ég vil aðeins rifja upp, af því að það er orðin lenska í þessu þingi að tala allt niður — menn tala um að mál séu svo illa undirbúin, þau komi svo illa unnin hér inn í þingið ef þingnefndir leyfa sér að breyta einhverju í þeim. Þessu atriði er ég algerlega ósammála. Ég vil segja sérstaklega um þetta mál að það var mjög vel undirbúið. Það byggir á mjög traustum grunni sem er í fyrsta lagi skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og í öðru lagi skýrsla þingmannanefndarinnar og í þriðja lagi skýrsla um Stjórnarráðið sem sérstaklega var unnin fyrir forsætisráðherra. Það skortir því ekkert á að þetta mál hafi verið vel undirbúið.

Ég setti fram þá gagnrýni hér í vor, þegar málið kom til 1. umr., að ég teldi að frumvarpið gengi ekki nógu langt, það væri ekki nógu róttækt og ég lýsti því í nokkuð mörgum atriðum í ræðu minni þá og ætla ekkert að fara að endurtaka það hér. En svo virðist sem hv. allsherjarnefnd hafi verið sammála í mörgum atriðum um það að frumvarpið gengi ekki nógu langt og því gerir nefndin nokkuð miklar og umtalsverðar breytingar á frumvarpinu. Um það er það eitt að segja að það er hlutverk þingnefndarinnar og þingsins að fara vandlega yfir þau mál sem koma inn til nefnda, kalla eftir umsögnum, hlýða á gesti og ræða málin að því loknu og koma fram með breytingartillögur. Það er alls ekki merki um það að mál hafi verið eitthvað illa undirbúin þó að nefndir komi með breytingartillögur við tiltekin atriði og jafnvel þó að það sé í grundvallaratriðum, frú forseti.

Ég tel því að menn eigi að horfa til þess að það er vinna þingsins sem skiptir máli. Við eigum að bera þá virðingu fyrir vinnu í þingnefndum að tala hana ekki niður sýknt og heilagt. Það var ekki vanþörf á að koma fram með nýtt frumvarp um Stjórnarráð Íslands og í kjölfar hrunsins varð sannarlega ljóst að þar mátti, á stjórnarheimilinu, ýmislegt betur fara. Leiðarljósin í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru meðal annars þau að efla þurfi fagmennsku og stórbæta vinnubrögð innan stjórnsýslunnar, meðal annars með skýrari boðleiðum milli embættismanna og stjórnmálamanna.

Rannsóknarnefnd Alþingis telur líka mikilvægt að setja stjórnmálamönnum og embættismönnum siðareglur sem draga fram og skerpa þá ábyrgð og skyldur sem felast í störfum þeirra. Rannsóknarnefndin taldi að takmarka bæri pólitískar ráðningar við það sem lög leyfa og loks að skerpa þyrfti á ráðherraábyrgðinni. Auðvitað er margt fleira sem þarna kom fram en þetta eru þau atriði sem ég vil draga fram, frú forseti, og benda á að skipta miklu máli. Þau eru komin inn í þetta frumvarp og það skiptir miklu máli að við ljúkum umfjöllun um þetta hér í þingsal, klárum málið og gerum það að lögum. Menn verða einfaldlega að ræða efnisatriðin sem þeir eru sammála eða ósammála um og takast síðan á um þau í atkvæðagreiðslu en ekki þæfa málin hér dögum eða vikum saman í von um að drepa ekki bara það, viðkomandi mál, heldur helst öll önnur.

Frú forseti. Það hefur einkum verið rætt um þrennt í þessu frumvarpi og þær breytingar sem hafa verið gerðar á því í meðförum nefndarinnar. Fyrst og fremst hefur kannski verið rætt um 2. gr. af því að henni var ekki breytt í meðförum nefndarinnar, en sú grein fjallar um það, frú forseti, að ríkisstjórnin sjálf skipti með sér verkum, að það sé ríkisstjórnin eða framkvæmdastjóri hennar, sem er forsætisráðherra, sem ákveður skiptingu verka í ríkisstjórninni.

Menn hafa fundið þessu allt til foráttu og fullyrt að hér sé verið að fela einum einstaklingi eitthvert einræðisvald og að verði þetta ákvæði að lögum muni ákvarðanir um ráðuneyti, hvar málum skuli skipað í ráðuneyti og hverjir skuli með fara, vera háð geðþóttavaldi einhvers einræðisherra.

Það er ekkert sem er fráleitara en þessi fullyrðing. Það er búið að sýna það í þessum ræðustól oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að þeir sem þannig tala láta í veðri vaka að í Noregi og í Danmörku ríki einræði. Þessar þjóðir hafa, ásamt mörgum öðrum nágrannaþjóðum okkar, haft nákvæmlega þetta fyrirkomulag á, að þegar ríkisstjórn er mynduð og styðst við annaðhvort þingmeirihluta eða hlutleysi og stuðning í þinginu, sem jafngildir þingmeirihluta ef til vantrausts kemur — þegar slík ríkisstjórn kemur til valda skiptir hún með sér verkum. Það kann að vera að aðstæður krefjist þess eða það sé vænlegt að breyta einhverju í verkaskiptingu, meðal annars með tilvísun til pólitískra áherslumála þeirrar ríkisstjórnar sem kosin er til að taka við. Hún vill kannski leggja aðrar línur í Stjórnarráðinu en sú sem fór frá. Það getur líka verið að upp komi utanaðkomandi atriði sem beinlínis kalli á og krefjist breytinga á stjórnarheimilinu, þ.e. í verkaskiptingunni þar.

Því er að sjálfsögðu eðlilegt, eins og hefur verið gert í löndunum hér í kringum okkur, að menn skipti verkum á stjórnarheimilinu. Það er fráleitt að tala eins og hægt sé að leggja niður ráðuneyti eða stofna ný að geðþótta forsætisráðherra. Enda þótt segi í lögunum að forsætisráðherra geri þetta og geri hitt er þar að sjálfsögðu um að ræða verkstjórann, sem í okkar stjórnmálasögu er venjulega verkstjóri fleiri en eins stjórnarflokks og að sjálfsögðu eru það þeir stjórnarflokkar sem skipa, og mynda ríkisstjórn og bera á henni ábyrgð í þinginu gagnvart þjóðinni, sem ákvarða í reynd hvernig verkaskiptingunni skuli háttað.

Það er því langt í frá að verið sé að taka eitthvert vald frá þinginu með þessu móti því að það er ekki hægt að breyta ráðuneytum eða verkefnum milli ráðuneyta öðruvísi en þingmeirihluti stjórnarþingmanna liggi þar að baki. Það er alls ekki þannig að hér sé verið að gera tillögu um það að einn einstakur ráðherra eða forsætisráðherra eigi að ráða hér einu og öllu, heldur bara að ríkisstjórn, að meiri hluti Alþingis á hverjum tíma, geti skipt með sér verkum innan Stjórnarráðsins eftir því sem best og farsælast þykir á hverjum tíma.

Ég er þeirrar skoðunar, frú forseti, að það hefði ekki veitt af í hruninu að hafa þann sveigjanleika í Stjórnarráðinu sem hér er minnst á. Eða eigum við kannski að ræða hið litla viðskiptaráðuneyti sem var splunkunýtt með örfáa starfsmenn og réði ekki neitt við neitt?

Annað atriði sem menn hafa verið að tala um er að verið sé að reka Jón Bjarnason, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, úr ríkisstjórn. Ég vil segja það hér, frú forseti, að í þessu ákvæði frumvarpsins felst engin atlaga að einum eða neinum einstökum ráðherra og alls ekki að hæstv. ráðherra Jóni Bjarnasyni. Ef hann telur að þessu atriði, þessari grein frumvarpsins, sé stefnt gegn sér verður hann að bregðast við því sjálfur. En það hefur verið stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að taka upp betri starfshætti og meiri sveigjanleika í skipan Stjórnarráðsins og eitt af því sem við höfum litið til í gegnum árin — og ekki bara eftir að við komum til ríkisstjórnarsamstarfs — er einmitt hvernig Norðurlandaþjóðirnar og aðrar þjóðir skipta með sér verkum, eins og til að mynda í Noregi, þar sem menn eru með sérstakt ráðuneyti sem fjallar um málefni barna. Hvers vegna? Jú, það er vegna þess að á tilteknum tíma töldu stjórnarflokkarnir þar mjög mikilvægt að gefa þeim málum aukið vægi. Þegar Danir fóru í endurskipulagninguna á heilbrigðiskerfi sínu í fyrra settu þeir á stofn innanríkis- og heilbrigðisráðuneyti til að geta straumlínulagað þær breytingar og fellt saman við breytingar á svæðafyrirkomulagi á sveitarstjórnarstiginu.

Ég vil því, frú forseti, bara ítreka það að enginn einn forsætisráðherra og heldur ekki annar stjórnarflokkur eða einn stjórnarflokkur af mörgum getur rekið einstaka ráðherra úr ríkisstjórn, það er bara einfaldlega ekki þannig. „Der skal to til,“ eins og danskurinn segir. Í fleirflokka ríkisstjórnum hefur einn flokkur ekkert alræðisvald, það er bara einfaldlega þannig. Þeir sem hins vegar tala þannig hafa kannski einhverja slíka reynslu, það skyldi þó ekki vera? Menn hafa verið að tala um að hér séu menn að taka vald frá þinginu. (Gripið fram í.)

Eigum við að ræða Íraksstríðið? (Gripið fram í.) Voru menn þar að taka vald frá þinginu eða frá ríkisstjórn (Gripið fram í.) eða frá utanríkismálanefnd? (Gripið fram í.) Við skulum ræða Líbíu og muninn á því hvernig um það var fjallað í utanríkismálanefnd, í þingsal og í ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Eins og svart og hvítt, hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, eins og svart og hvítt. Írak, aðild Íslands að árásarstríðinu í Írak, (Gripið fram í.) það var ekki einu sinni rætt í ríkisstjórn.

Ef menn eru að tala um að hér sé einhver vanþörf á því, og það voru 6., 7. og 11. gr. sem ég ætla næst að ræða — (Forseti hringir.)

(Forseti (RR): Forseti vill spyrja hv. þingmann, í ljósi þess að hér er íhugað að gera þinghlé klukkan eitt, og þegar hafa fjórir hv. þingmenn óskað eftir andsvari, hvort þingmaðurinn eigi langt eftir af ræðu sinni.)

Nei, þingmaðurinn skal ljúka ræðu sinni, frú forseti.

Bara ein setning um fundargerðir og það sem er fjallað um í 6., 7. og 11. gr. — það er mjög mikilvægt að setja nákvæmar reglur um það hvernig bóka skuli, hvað skuli tekið fyrir á ríkisstjórnarfundum og hvernig með þau gögn skuli fara og hvernig með trúnaðargögn skuli fara. Þetta hefur ekki verið í lögum og reglum í okkar Stjórnarráði og þetta er, að mínu mati, eitt af því mikilvægasta sem verið er að gera tillögur um.

Frú forseti. Ég vildi að ég gæti komið að umræðu um þriðja atriðið sem ætlaði mér að gera en ég óttast að mér dugi ekki tími til þess en það varðar aðstoðarmennina. Ég fæ kannski tækifæri til þess síðar í umræðunni að gera það.

Að lokum, frú forseti: Er það virkilega svo að þingmenn Sjálfstæðisflokks og þingmenn Framsóknarflokks vilji engu breyta í Stjórnarráði Íslands? Er þetta svona ofboðslega fínt, er þetta svona gott? Dugði þetta svona vel í hruninu? Hafa menn ekki lesið rannsóknarskýrsluna eða þingmannaskýrsluna eða skýrsluna um Stjórnarráðið?

Ég skora á ykkur, hv. þingmenn, verið þið með í því sem þið teljið að sé til bóta í þessu frumvarpi en greiðið þið atkvæði gegn hinu.