Stjórnarráð Íslands

Mánudaginn 12. september 2011, kl. 21:12:53 (0)


139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:12]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að mínu áliti eru þættir í þessu frumvarpi sem horfa til framfara. Þar er verið að leggja til breytingar og lagfæringar á ýmsum þáttum sem mér finnst ljómandi fínt og geri ekki athugasemd við. Ég sé enga ástæðu til þess að gera ágreining um eitthvað sem er til bóta. Það eru hins vegar stórir þættir í frumvarpinu sem ég er ósammála. Einn af þeim er sá þáttur sem hv. þingmaður tæpti á, þ.e. þessi aukna miðstýring sem mér finnst geta orðið hálfgerð hentistefna forsætisráðherra á hverjum tíma. Það finnst mér vera mjög til vansa.

Síðan eru í frumvarpinu þættir sem að mínu áliti þyrfti að skoða nánar. Ég tók tvö dæmi af handahófi í lok ræðunnar áðan. Ég get líka tekið dæmi um breytingartillögurnar þar sem er verið að leggja til ákveðnar breytingar á frumvarpinu sem ég hygg að þurfi miklu betri skoðun.

Mín niðurstaða er sem sagt sú að þetta frumvarp sé ekki tilbúið til afgreiðslu, það þurfi að gefa því meiri tíma. Það getur vel verið að þá komi fleiri þætti upp á yfirborðið sem þurfi að skoða nánar. Ég sé ekki af hverju þarf að afgreiða þetta svona hratt. Ég hef ekki fengið skýringar á því hver tilgangurinn (Forseti hringir.) er.