Stjórnarráð Íslands

Miðvikudaginn 14. september 2011, kl. 18:34:58 (0)


139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:34]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er almennt þeirrar skoðunar að styrkja þurfi þingið eins og ég vék að í ræðu minni áðan, þannig að ég er mótfallinn því að verið sé að færa mikil völd frá þinginu til framkvæmdarvaldsins. Hins vegar hefur það verið alveg sérstakt vandamál í Evrópuþinginu það sem menn hafa kallað á ensku „soft law“, reglugerðarvæðing var hugtakið sem hv. þingmaður tók sér í munn. Kvartað hefur verið undan því í vaxandi mæli á Evrópuþinginu að framkvæmdastjórnin taki til sín aukin völd með reglugerðarvæðingu og alls konar tilskipunum.

Í mínum huga er það þannig, af því að við ræðum þessi mál í mjög víðu samhengi, að sum mál eiga að vera hafin yfir hversdagslegar pólitískar þrætur. Mér finnst t.d. að framtíðarskipan Stjórnarráðsins ætti að vera hafin yfir það. Við getum síðan tekist á um fiskveiðistjórnarkerfið og hápólitísk mál og ég held að það sé skilningur fyrir því í þjóðfélaginu, en ágreiningsatriði í þessu máli ættu að vera hafin yfir (Forseti hringir.) pólitískar þrætur hér í þinginu.