Afstaða ráðherra til frumvarps um Stjórnarráðið

Fimmtudaginn 15. september 2011, kl. 10:44:52 (0)


139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

afstaða ráðherra til frumvarps um Stjórnarráðsins.

[10:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Úr því að forseti kemur því ekki á framfæri við hæstv. fjármálaráðherra skal ég segja að íslenskan er málið sem maður notar í ræðustól.

Það er eitthvað að hljómburðinum í salnum, frú forseti. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki heyrt það sem ég spurði hann um. Hvað hefur breyst í skoðunum fjármálaráðherra á því hvernig vinna eigi lög sem þau sem við erum að fjalla um? Hvað hefur breyst? Því þarf ekki samstöðuna núna sem hæstv. fjármálaráðherra talaði svo fjálglega um árið 2007? Er það virkilega þannig, frú forseti, að hæstv. fjármálaráðherra sé búinn að snúa baki við allri þeirri vinnu og því sem kom út úr þingmannanefndinni svokölluðu? Hvað með formfestuna sem hæstv. fjármálaráðherra hefur sjálfur talað um, þar á meðal árið 2007, að þyrfti að vera til staðar?

Þá hljótum við að spyrja okkur í framhaldinu: Hvað í ósköpunum er það sem liggur svona á að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra leggja allt í sölurnar til að klára þetta mál? Það er náttúrlega undarlegt að eftir því sem við tölum meira fjölgar málum á dagskránni. Það er nokkuð sem þarf að skoða. Hæstv. fjármálaráðherra hlýtur (Forseti hringir.) að geta svarað því (Gripið fram í.) hvað veldur þessum sinnaskiptum. Treystir hæstv. fjármálaráðherra ekki lengur þeim manni (Forseti hringir.) sem hann treysti fyrir þingmannanefndinni? (Gripið fram í: Eitthvað er …)