Stjórnarráð Íslands

Fimmtudaginn 15. september 2011, kl. 22:00:45 (0)


139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðu hans. Það er eðlilegt að hann velti þessum álitaefnum upp vegna þess að hann á sæti í fjárlaganefnd.

Það er afar einkennilegt hvernig málum er háttað í þeim breytingartillögum sem liggja nú fyrir þinginu og nefndarálitum frá meiri hluta allsherjarnefndar vegna þess að það er svo sem ekkert rökstutt hvers vegna þurfi að fjölga aðstoðarmönnum ráðherranna. Það er líka svolítið merkilegt sem kom fram í ræðu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur að gert er beinlínis ráð fyrir því að ráðherrarnir verði áfram tíu því hún talaði um að aðstoðarmenn væru 20 og síðan væru þrír svona „frílans“ sem gætu flakkað á milli ráðuneyta. Ég ber enn þá von í brjóst að hægt sé að spara svo mikið í ríkisrekstrinum að fækka megi t.d. ráðherrum í sjö eða átta, ég tala ekki um ef þetta eiga að vera meira og minna einhverjir aðstoðarráðherrar hjá forsætisráðherra, þá hlýtur það að vera hægt. En þarna er aukið mjög í á kostnað skattgreiðenda og heyrst hafa tölurnar 130–180 millj. sem aðstoðarmennirnir koma til með að kosta. Mig minnir að í fyrra hafi verið gerð tillaga um niðurskurð gagnvart Alþingi upp á svipaða upphæð. Það var búið að skera Alþingi alveg niður við trog í hittiðfyrra og árið eftir var Alþingi gert að spara að minnir mig nánast þessa sömu upphæð.

Hvers vegna heldur hv. þm. Ásbjörn Óttarsson að svo mikið sé lagt í framkvæmdarvaldið að þessu leyti? Hvernig getur þessi ríkisstjórn, velferðarríkisstjórnin, sífellt lagt til að mylja undir sjálfa sig og ráðuneyti sín? Á meðan niðurskurður er á heilbrigðisstofnunum úti á landi, niðurskurður hjá Alþingi og niðurskurður alls staðar finnast sífellt peningar til að setja í ráðuneytin.